mánudagur, 8. febrúar 2016

Betri án Blake eða hvað?


Veistu hver munurinn er á þversögn og mótsögn? Það skiptir ekki öllu máli akkúrat núna, því bæði hugtökin eiga við körfuboltaliðið Los Angeles Clippers í dag.

Það hlýtur að segja sig sjálft að þegar þú kippir Stjörnuleikmanni sem skilar 23 stigum og 9 fráköstum út úr hvaða liði sem er, þá finni það fyrir því og veikist talsvert. Auðvitað er Clippers-liðið ekki eins sterkt þegar Blake Griffin er ekki með. Auðvitað er liðið ekki betra án hans...!

Víst! 

Við höfðum orð á þessu í Clippers/Griffin pistli fyrir nokkrum dögum, en nú er mælirinn fullur. Clippers-menn halda bara áfram að vinna og vinna og vinna án handleggsbrotinnar stjörnu sinnar, svo mikið að það er orðið mjög áberandi. Skeddjúlið hjá þeim er ekki það erfiðasta í heimi en þið vitið alveg að það er ekkert mál að tapa leikjum í NBA deildinni.

Clippers var 18-13 þegar Griffin meiddist á jólunum en síðan hann datt út, er liðið búið að vinna sautján leiki og tapa aðeins fjórum! Vaddahell, þúst!

Sko, við vitum alveg að lið eiga það til að þjappa sér saman og spila aðeins fastar þegar menn detta svona út. 

Þá hóa menn sig saman og deila niður stigunum/skotunum sem upp á vantar og berjast 15-20 prósent meira en áður, til að brúa bilið. En þetta dæmi hjá Clippers er bara rugl.

Chris Paul er búinn að gefa í, enda er hann sá sem mest mæðir á hjá liðinu og það kemur einna helst í hans hlut að gera meira þegar Griffin er ekki með. Og hann stendur oftast undir því þessi smávaxni skaphundur, því fólk gleymir því nefnilega stundum að hann er alveg fáránlega góður í körfubolta.

En allt þetta er bara ekki viðunandi útskýring. Clippers á ekki að vera svona bleh eins og það var á fyrstu vikum tímabilsins, en það á líka alls ekki að verða skyndilega besta lið í heimi þegar Griffin meiðist.

Við erum búin að reyna, en allt kemur fyrir ekki. Spilamennska Clippers er bara í alla staði betri þegar Griffin er ekki með, þó okkur finnist þetta hálfgert guðlast að segja svona. 

Nú öskra sófaframkvæmdastjórarnir fyrir framan sjónvarpið á Doc Rivers og skipa honum að skipta Blake Griffin í burtu nú þegar hæsta mögulega verðið fæst fyrir hann. Rólegir. Það er afar ólíklegt að Doc og félagar hafi kjark eða hreinlega áhuga á því að fara út í einhverja svona dramatík á þessu stigi málsins.

Ef við reynum að líta raunsætt og rökrétt á þetta vandræðalega mál - eins og hlutirnir séu ekki nógu vandræðalegir fyrir hjá aumingja Griffin - þá þýðir það sennilega það sem spekingarnir hafa verið að tala um á bak við tjöldin undanfarin ár: Partarnir í Clippers-bílnum passa bara ekki saman.

Við fyrstu sýn virðist þetta farartæki vera rosalega flott. Það lúkkar eins og gæjalegur sportbíll, er með flekklaust lakk og á nýjum dekkjum. En þegar þú rífur upp húddið og kíkir ofan í, er þar mótor úr 1982 módelinu af Caterpillar D-4 jarðýtu í staðinn fyrir hefðbundna sportbílsvél.*

Það er náttúrulega hægt að nota jarðýtuvélina í allan fjandann - til dæmis í jarðýtu eða eitthvað annað heví djútí dæmi - en það gefur augaleið að þú ert ekkert að fara að setja jarðýtumótor í sportbíl. Það væri eins og að ætla að setja vél úr Toyotu Tercel ´87 í fjögurra öxla MAN og spenna aftan í hann treiler. Einmitt. 

Þetta er rosalega vandræðalegt fyrir aumingja Blake Griffin, eins og hann var að spila vel aumingja karlinn. En svo fattar hann allt í einu að hann er að hjálpa liðinu sínu betur með því að berja vin sinn og handleggsbrjóta sig. 

Svo veit náttúrulega enginn upp á hverju deildin tekur þegar hún verður búin að rannsaka þetta mál hans. Kannski henda þeir honum í gott bann ofan á allar þessar meiðslavikur, eins og til að moka salti í opin sárin.
Amma hans Bigga löggu á eftir að fá fleiri atkvæði í MVP kjörinu í vor.

Þetta er ljóta andskotans vesenið. Hugsið ykkur, svo er liðið víst búið að vinna átján af tuttugu síðustu leikjum sínum eða eitthvað álíka, en samt saxar það ekkert á forskot Oklahoma í þriðja sæti vestursins, sem saxar ekkert á forskot San Antonio í öðru sæti vestursins, sem saxar ekkert á Golden State í fyrsta sæti vestursins. Þetta er þrepareglan svokallaða.**

Það er bölvað þunglyndi að vera Clippers-maður eða kona þessa dagana. Kannski eru það bara við, en okkur finnst hálfgerður deprímeringar skuggi hanga yfir þeim. Það er eins og hvað sem þeir gera, hversu vel sem þeir gera það, sé einfaldlega bara ekki nóg.

------------------------------------------------------------------------------------------------------

* -  Við gerum okkur grein fyrir því að þessi ímyndaði sportbíll okkar þyrfti að vera heeelvíti stór til að rúma mótor úr Caterpillar fjarka ofan í vélarrýminu. Það er bara svo þægilegt að grípa til vinnuvélaanalóga til að útskýra dílemmu Clippers-liðsins.

** - Hélstu virkilega að væri til eitthvað sem heitir þrepareglan? Plís.

sunnudagur, 7. febrúar 2016

Warriors stóðst enn eitt prófið - Oklahoma ekki


Fólk sem fylgist með boltaíþróttum á það til að fullyrða eitt og annað - senda frá sér eins konar yfirlýsingar - sem það svo leggur fyrir félaga sína eða hvern sem vill eða vill ekki heyra þær. Margir finna reglulega hjá sér sérstaka þörf á að gefa frá sér svona yfirlýsingar.

"Þetta lið er fallið!" "Þetta lið verður meistari! "Þessi verður markakóngur!" Eitthvað í þessum dúr. Við gerum þetta stundum, eins og þið vitið væntanlega ef þið hafið lesið NBA Ísland lengur en í mánuð. 

Já, við erum með þessa tendensa, en þeir eru líka fastur partur af því að skrifa um íþróttir. Það væri ekkert gaman af þessu ef enginn tæki nokkru sinni áhættu á því að líta illa út með því að fullyrða um eitthvað (eins og fífl). Sjáið bara öll eggin sem við höfum fengið í andlitið og alla hattana sem við höfum étið, bara út af San Antonio Spurs.

Þið áttið ykkur líklega á því hvert við erum að fara með þessu. Golden State var aftur á ferðinni í nótt sem leið. Meistararnir voru aftur að spila við eitt af liðunum sem eiga að geta gert þeim lífið leitt í úrslitakeppninni í vor. 

Það var Oklahoma sem var á matseðlinum hjá þeim í nótt.

Eini munurinn á viðureign Golden State og Oklahoma annars vegar og Golden State og Cleveland og San Antonio hins vegar, er að Warriors-menn náðu ekki yfir 30 stiga forystu á neinum tímapunkti í þessum. 

Golden State drullaði yfir Cleveland og San Antonio með samanlögðum 64 stigum fyrir stuttu, en vann þennan ekki nema 116-108 þrátt fyrir að hafa náð 20 stiga forskoti á tímapunkti. Það getur sumsé vel verið að margir yfirlýsinga- og fullyrðingaglaðir menn hafi notað þennan leik til að hjóla af stað - og sjái nú titilinn ekki annað en formsatriði fyrir Warriors. Það þurfi hreinlega ekki að spila restina af tímabilinu.

Við skulum nú róa okkur alveg á því, en við neitum því ekki að Golden State er búið að taka öll próf sem fyrir það hafa verið lögð í vetur, fá tíu á þeim, krumpa þau saman í kúlu, henda þeim upp í loftið og sparka þeim beint ofan í ruslafötuna með hælspyrnu af sjö metra færi - án þess að horfa.

Það var rétt sem Stephen Curry sagði eftir leikinn, hann minnti á leik í úrslitakeppni, sérstaklega í síðari hálfleiknum. Fyrri hálfleikurinn minnti reyndar alls ekki á leik í úrslitakeppni af því þá spilaði hvorugt liðið vörn, sérstaklega gestirnir, sem voru átakanlegir á þeim endanum.

Þriggja stiga skotin duttu ekki hjá þeim Stephen Curry og Klay Thompson í nótt og það er stundum frekar alvarlegt mál fyrir Warriors, því liðið treystir jú talsvert á frábæra hittni þeirra fyrir utan. 

En Golden State væri auðvitað ekki meistar ef það stæði og félli með einhverjum einum hlut í sókninni og í gær voru það varamennirnir sem tóku upp hanskann í staðinn. 

Þeir Andre Iguodala, Shaun Livingston, Marreese Speights og Leandro Barbosa skoruðu 42 stig í leiknum og skutu 60%. Kaupir það ekkert í Krónunni.

Oklahoma fékk ekkert svona af bekknum ef Enes Kanter er undanskilinn. Tyrkinn nær alltaf að búa sér til fullt af tölum af bekknum, alveg sama hvað hann spilar lítið. Í nótt náði hann að dæla upp 14 stigum og 15 fráköstum á aðeins 20 mínútum, sem er auðvitað lygilegt. 

Kanter spilaði svo vel í sókninni að hann náði að réttlæta veru sína inná vellinum á meðan, sem hann gerir mjög sjaldan, þar sem hann er vanur að kosta Oklahoma jafn mörg stig í vörninni og hann skorar í sókninni. 

Dion Waiters passar ekki inn í Oklahoma City frekar en nokkuð annað körfuboltalið og við efumst um að hann eigi eftir að fá annan samning í NBA deildinni. Og talandi um samninga. Ætli Billy Donovan sé pabbi hans Kyle Singler?  

Það er eina ástæðan sem við sjáum fyrir því að Singler sé bæði með samning í NBA deildinni OG fái actually að spila þrettán mínútur í leik! Singler er lélegasti leikmaður deildarinnar - og það með yfirburðum... eða undirburðum - leirburðum. Fokk it, hann er bara lélegur. Öskrandi, æpandi lélegur.

Oklahoma er vissulega með Kevin Durant og Russell Westbrook og Serge Ibaka og svona, gott, gott, en það er líka að útdeila mínútum á Enes Kanter sem mun aldrei spila vörn í NBA deildinni af því hann kærir sig ekki um það, lélegasta leikmann deildarinnar í Kyle Singler, nýliða (nýliðar kunna ekkert og geta ekkert), mann með klíníska skotfælni (Roberson) og síðast en ekki síst, þann einstakling sem lifir í stærstu blekkingu allra leikmanna NBA deildarinnar (Dion Waiters).*

Annars var ekkert í þessum leik í gær sem kom á nokkurn hátt á óvart. Golden State komst 20 stigum yfir, Westbrook og Durant skutu Oklahoma aftur inn í leikinn og gerðu hann áhugaverðan í lokin, en Warriors-liðið lokaði honum þegar á reyndi. Hó-humm.

Í gegn um tíðina hefur okkur stundum fundist sóknarleikur Oklahoma hræðilega einhæfur og fyrirsjáanlegur, þar sem hann hefur ekki gengið út á neitt annað en að Westbrook og Durant skiptast á að fara einn á þrjá eða eitthvað í þeim dúr. Sem sagt ENGIN strategía, engin kerfi, engin hlaup, ekkert gert til að einfalda sóknarmönnunum lífið eða villa um fyrir andstæðingnum.

Billy Donovan átti að breyta þessu, var það ekki? 

Var Scott Brooks ekki rekinn af því hann var kominn á endastöð með liðið sóknarlega? 

Átti Donovan ekki að koma með ferskt fleivor inn í liðið bæði í vörn og sókn? Við hefðum haldið það.

Við vitum alveg að Donovan er ekki búinn að stýra liðinu nema í nokkra mánuði, en vitið þið hvað? 

Hann er samt búinn að stýra þessu liði í meira en 60 körfuboltaleikjum þegar allt er talið og því er andskotinn hafi það ekki til of mikils mælst að sjá einhverjar breytingar til góðs hjá liðinu!

Eiga Westbrook og Durant það til að hreyfa sig eitthvað aðeins án bolta í sóknarleik Oklahoma? Já, já, eitthvað aðeins, en þeir gerðu það ekki á móti Golden State í gær og það er ekki einu sinni stærsta vandamálið. Stærsta vandamál Oklahoma í dag er varnarleikurinn. Við erum búin að fylgjast nokkuð vel með Oklahoma í nokkur ár og með þeim fyrirvara að við höfum ekkert vit á körfubolta, finnst okkur liðið aldrei hafa spilað eins lélega vörn og í ár.

En ætli tölfræðin bakki þetta upp? Auðvitað gáðum við að því - og jú, tölfræðin segir okkur líka að vandamál Oklahoma sé varnarleikurinn, þó sóknarleikurinn sé einhæfur. 

Það er nefnilega þannig að þessi einhæfi og stundum ljóti sóknarleikur Oklahoma, er nógu góður til að skila liðinu í eitt af efstu sætum sóknartölfræðinnar á hverju einasta ári.

Og Oklahoma var um árabil með nokkuð sterka vörn - og það var þess vegna sem liðið var svona ógeðslega gott - talsvert betra en það er í dag. 

Vörn OKC náði hámarki leiktíðina 2013 þegar liðið fékk ekki á sig nema 99,2 stig á hverjar 100 sóknir, sem var þriðji besti árangurinn í NBA það árið (ásamt San Antonio, sem var með nákvæmlega sömu tölfræði).

Við verðum náttúrulega að setja smá * aftan við síðustu tvö ár hjá Oklahoma vegna meiðsla þeirra Durant og Westbrook, sérstaklega á síðustu leiktíð, þar sem Durant spilaði ekki nema 27 leiki og Westbrook 67. 

En eins og þið sjáið á töflunni hérna fyrir ofan (sem við föndruðum af fullkomnu kunnáttuleysi en biðjum ykkur samt að gefa gaum af því það tók okkur aðeins of langan tíma að setja hana saman), hefur varnarleikurinn frekar verið á niðurleið en uppleið.

Í dag er Oklahoma með elleftu bestu vörnina í NBA deildinni samkvæmt tölfræðinni og næstbesta sóknarleikinn á eftir Warriors. Þetta myndi nægja einhverjum, en þetta er ekki nógu gott fyrir okkur. 

Þetta lið getur miklu betur og verður að spila betur en þetta ef það ætlar sér að gera einhverja hluti. Og þið vitið að það er náttúrulega bara hægt að gera einn "hlut" í NBA deildinni - vinna meistaratitilinn. Það gerist ekki með svona spilamennsku - og það langt í frá.

Já, svona er erfitt að gera okkur til geðs, en við trúum því ekki að það séu bara við sem erum í gremjukasti yfir þessum aulagangi hjá Oklahoma. Við þykjumst vita að stuðningsmenn liðsins og þeir sem vilja sjá þetta lið vinna titil séu allt annað en sáttir við stöðu mála.

Hugsið ykkur bara þegar við horfum til baka eftir tíu, tuttugu eða þrjátíu ár, þegar fólk verður búið að setja það í endanlega rétt samhengi hvað menn eins og Durant og Westbrook voru góðir körfuboltamenn á sínum tíma og hvar og hvernig þeir ránka miðað við aðra snillinga NBA deildarinnar. 

Haldið þið að menn eigi eftir að dásama og ausa hrósi, tvo menn sem voru svona góðir í körfubolta en náðu kannski að komast bara einu sinni í lokaúrslitin þó þeir hafi spilað saman í mjög sterku liði með nánast sama kjarna í fjölda ára?

Ekki aldeilis. Og þó það sé ósanngjarnt, eiga þeir félagar á hættu að enda bara í sama kassa og Carmelo Anthony á skjalasafninu þegar allt er talið. Rykuga kassanum sem er úti í horni á lagernum og enginn skoðar. Kassanum sem allt eins gæti verið merktur "bleh" með þykkum svörtum túss.

Þetta er skelfileg tilhugsun.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Blekking Dion Waiters lýsir sér þannig að hann er með þá meinloku fasta í höfðinu á sér að hann sé hæfasti leikmaðurinn inni á hvaða körfuboltavelli sem hann stígur inn á og það er alveg sama hvað hann gerir sig að miklu fífli, hann mun aldrei horfast í augu við það að hann er ekki stórstjarnan sem hann heldur að hann sé - heldur þvert á móti frekar lélegur körfuboltamaður, hvers dagar verða mjög líklega taldir í deildinni þegar samningur hans rennur út á næsta ári.


föstudagur, 5. febrúar 2016

fimmtudagur, 4. febrúar 2016

Hvernig varð Warriors-liðið svona gott?


Skondið. Við rákumst á grein í gær sem við skrifuðum um Warriors í desember árið 2012, þar sem við vorum á einlægan en samt nokkuð kaldhæðinn hátt að spá í það hvernig í fjandanum stæði á því að Golden State væri allt í einu farið að vinna körfuboltaleiki. Það var engin furða, því þið eruð sjálfsagt ekki búin að gleyma því að þetta Warriors-lið var brandari, okkur liggur við að segja áratugum saman.

Án þess að vera að berja okkur á brjóst, verðum við að minnast á það að í þessum pistli fyrir þremur árum vorum við að hrósa Warriors fyrir að hafa losað sig við Monta Ellis og bundum vonir við að liðið yrði betra eftir að hann færi. Það kom sannarlega á daginn, þó okkur hefði ekki órað fyrir því hvurslags bylting ætti eftir að eiga sér stað hjá félaginu. Það þarf svo sem enga eldflaugaverkfræðinga til að gefa sér það að körfuboltalið verði betra eftir að það losar sig við Monta Ellis, en gefið okkur þennan litla mola, fjandinn hafi það.

Við vorum ekki alltaf svona gáfuð, því þó við finnum ekki þau skrif (eða nennum ekki að leita að þeim) vorum við á einhverjum tímapunkti að rífast út í forráðamenn Warriors fyrir ákvarðanatöku þeirra. En þið getið ekki verið að bleima okkur fyrir að vera neikvæð út í félag sem átti sér áratuga langa sögu sem fjallaði ekki um neitt annað en undirmigur og brúnar brækur.

Spólum þrjú ár fram í tímann og þessi eitt sinn glórulausi klúbbur er kominn alveg út á hinn endann í litrófinu - hann er orðinn glórulaus af því hann er svo góður!

Við vitum að við erum alltaf að missa allar mögulegar gerðir af líkamsvessum yfir þessu Warriors-liði, en eins og við segjum ykkur alltaf, þetta lið er bara svo andskoti innspírerandi að við getum ekkert að þessu gert.

Kvöld eftir kvöld hristum við bara höfuðið og hlæjum út í nóttina á brjálæðislegri vampíruvaktinni, en hugsum um leið sorgmædd til alls fólksins sem vegna áhuga- eða þekkingarleysis síns - nú eða bara af því það er svo andskoti vitlaust - er ekki búið að uppgötva þessa bestu afþreyingu sem völ er á í heiminum um þessar mundir. Veit ekki af þessari fagurfræðilegu íþróttabyltingu sem er ólík öllu sem við höfum séð áður.

Það er alveg magnaður fjandi hve mörg félög í NBA deildinni hreinlega átta sig ekki á því að þau vaða um í villu og eyða milljörðum króna og dýrmætum mánuðum og árum undir því yfirskini að þau séu að búa til góð körfuboltalið. Við áttum okkur alveg á því að það er hunderfitt að byggja upp gott lið, hvað þá lið sem á að ná alvöru árangri, en ef sauðnautin sem stýra sorglegustu klúbbunum í NBA deildinni myndu gefa sér smá tíma til að skoða félög eins og Golden State, myndu þau átta sig á því á fimm mínútum að öll þeirra plön eru gjörsamlega fáránleg. Þetta á við rekstur eins og hefur verið stundaður hjá klúbbum eins og Sixers, Nets, Knicks og Kings undanfarin ár svo einhverjir séu nefndir.

Undirstöðuatriðið sem þarf helst að vera í lagi ef byggja á upp sæmilegt körfuboltalið er að vera með eigendur sem eru ekki súrrandi geðveikir.

Því miður  falla nokkrir klúbbar í NBA deildinni strax á þessu prófi og þið þekkið nokkra þeirra. Sjáið til dæmis eigendur Sacramento Kings og Brooklyn Nets. Þessir menn hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera og ákvarðanataka þeirra keyrir klúbbana þeirra í hvert átakanlegt strandið á fætur öðru.

Klúbbarnir sem eru svo heppnir að vera með sæmilega ógeðveika eigendur, hvað þá eigendur sem eru tilbúnir að eyða smá peningum og tilbúnir í að ráða fólk á skrifstofuna sem þeir treysta til að vinna vinnuna sína, eru strax með risavaxið forskot á alla hina.

Enn og aftur gerum við okkur grein fyrir því að skrifstofufólk sem hefur þekkingu og hæfileika til að byggja upp meistaralið í NBA deildinni vex ekki á trjánum. Langt í frá. En það eru nokkur atriði sem er hægt að hafa í huga þegar kemur að því að leita að fólki til að stýra körfuboltaklúbbum eins og öðrum sportklúbbum. Það er hægt að leitast við að ráða fólk sem er með góðar ferilskrár og allra helst fólk sem hefur reynslu af því að vinna körfuboltaleiki - kemur frá klúbbum með sigurhefð. Það er ekki til endalaust af svona fólki, en það er þarna innan um.

Golden State hefur náð að sanka að sér ljómandi fínum mannskap. Eigendurnir virðast sæmilega heilir, það er með goðsögn og reynslubolta eins og Jerry West í stjórninni, framkvæmdastjórnn Bob Meyers virðist vita hvað hann er að gera og þegar hér er komið við sögu, förum við að heyra nöfn sem við könnumst betur við.

Þessi lygilega velgengni sem Warriors nýtur um þessar mundir er uppskera gríðarlegrar vinnu, en það er ekki bara snilligáfa sem gerir það að verkum að dæmið hefur gengið upp hjá þeim. Það er líka góður dass af heppni í þessu öllu saman.

Þó þjálfaratíð Mark Jackson hafi að hluta til einkennst af hálfgerðum vitleysisgangi, sérstaklega þegar kom að samskiptum Jakcson við samstarfsfólk sitt, verður það ekki af honum tekið að hann átti sinn þátt í að koma félaginu á rétta braut. Eins og við sögðum ykkur var búinn að vera losarabragur á Warriors meira og minna áratugum saman, en Jackson tókst að ná vel til leikmanna og gera sitt til að breyta kúltúrnum hjá félaginu.

Jackson gerði líka óhemju vel þegar hann á einhvern stórfurðulegan hátt náði að gera Golden State að bullandi fínu varnarliði þó hann hefði enga fyrri reynslu af þjálfun. Sóknarleikur liðsins var vandræðalega lélegur, sérstaklega á miðað við efniviðinn sem var til staðar í leikmannahópnum, en varnarleikurinn góður og Jackson tókst líka að ná nokkuð vel til leikmanna eins og Stephen Curry og fylla þá af sjálfstrausti.

Samstarfsörðugleikar og lélegur sóknarleikur urðu Jackson að falli á sínum tíma og hann var látinn fara þrátt fyrir að hafa augljóslega rifið liðið alveg helling upp frá því sem áður var.

En nýjir eigendur voru ekki saddir, þeir vildu ná lengra og ákváðu að láta Jackson fara, sem var mjög umdeild ákvörðun út á við, þó þeir sem þekktu til hjá félaginu vildu meina að það hafi ekki verið annað í stöðunni en reka manninn.

Var það rakalaus útsjónasemi og snilld sem varð til þess að félagið réði Steve Kerr - annan nýliða í þjálfun - til að taka við af Jackson fyrir einu og hálfu ári?  Kannski að hluta til, en það getur enginn sagt 100% til um það hvort menn verða góðir þjálfarar í NBA eða ekki, sérstaklega ekki ef þeir eru ekki með neina reynslu.

Það eiga allir rétt á að sjá Golden State


Hvað er hægt að segja annað eftir aðra eins flugeldasýningu og Golden State bauð upp á þegar það vann 44. leikinn sinn í vetur í stórskotaeinvígi við Washington í höfuðborginni. Mönnum hefur verið þakkað fyrir annað eins og Steph Curry og félagar sýndu í nótt, í brjáluðum óld-skúl 134-121 sigri sínum.

Eins og svo oft í vetur, fór Curry fyrir sínum mönnum, en í þetta sinn af meiri krafti en áður. Leikmenn Washington skynjuðu að þetta gæti orðið helvíti langt kvöld þegar hann sallaði sjö þriggja stiga körfum í andlitið á þeim í fyrsta leikhluta. Curry skoraði 36 stig í hálfleik og hefur þrisvar sinnum skorað 35+ stig í hálfleik á ferlinum - oftar en nokkur annar maður í NBA deildinni á síðasta áratug.

Hann lauk keppni í nótt með 51 stig úr 28 skotum, þar af ellefu þrista. Það var ekki verið að eltast við nein met á þeim bænum frekar en venjulega. NBA metið yfir flesta þrista í leik er 12. Þú getur rétt ímyndað þér hvort Curry hefði átt séns á að setja tvo þrista í öðrum, þriðja og fjórða leikhluta í nótt ef hann hefði virkjað sinn innri Kobe...

John Wall var frábær hjá Washington með 41 stig og 10 stoðsendingar, en hefði alveg eins getað ekið um völlinn á Land Rover með blæju, syngjandi lög með Stjórninni. Ekkert sem hann hefði getað gert hefði breytt niðurstöðu leiksins, þó við verðum að gefa Wiz kredit fyrir að reyna að hanga inni í leiknum.

Mikið var skrifað í metabækur eftir þennan leik eins og að því virðist í hvert skipti sem þetta Warriors-lið dettur í smá stuð.

Klay Thompson skoraði 24 stig og sex þrista en það tók enginn eftir því.

Draymond Green skoraði 12 stig, hirti 10 fráköst, gaf 12 stoðsendingar og varði 5 skot - það tóku fáir eftir því líka, þó hann sé búinn að slá þrennumetið á tímabili hjá Warriors (10) þó sé ekki einu sinni kominn Stjörnuleikur.

Það sjúkasta við þetta allt saman, ef þið spyrjið okkur, er tölfræðin hans Steph Curry í bull-skotunum. Þá erum við ekki að meina öll sirkus-skotin sem hann hitti úr inni í teig, þó nóg væri af þeim. Nei, við erum að meina skotin hans sem koma bókstaflega neðan úr bæ.

Þriggja stiga línan í NBA er í c.a. 7,3 metra fjarlægð frá körfunni í NBA og þykir flestum það alveg nóg, nema Curry. Hann er búinn að taka 99 skot í vetur af meira en 8,2 metra færi og hitta úr 50 þeirra. Það er náttúrulega alveg eðlilegt, eins og sést á því að restin af leikmönnunum í NBA deildinni eru að skjóta 24% af þessu sama færi.

Það er í fúlustu alvöru kominn tími til fyrir hinn almenna íslenska bol að taka sér tak og fara að horfa á NBA ef hann er ekki þegar að því.

Fólk sem hefur á einhvern hátt gaman af íþróttum á að horfa á Curry og Golden State spila körfubolta núna, því það verður talað um þessa spilamennsku eftir tuttugu ár og það verður talað um hana eftir fimmtíu ár.

Það er bylting í gangi. Nú er mál að gefa enska boltanum, spænska boltanum, handboltanum, íshokkíinu, blönduðu bardagaíþróttunum, hestunum og briddsinu pásu í bili og fara að horfa á Golden State. Það er algjört hneyksli að missa af þessu!

Farið því og látið fólk vita. Það eiga allir rétt á því að vita að sé eitthvað til sem heitir Stephen Curry og Golden State, svo rjúkið út í glugga eða út á götu og öskrið:

"KARLAR, KONUR OG BÖRN! ÞIÐ VERÐIÐ AÐ HORFA Á GOLDEN STATE... NÚNA! TAKIÐ YKKUR TAK OG VERÐIÐ VITNI AÐ KRAFTAVERKINU!" 

Eða eitthvað þannig.

Grínlaust, þetta er rugl!

þriðjudagur, 2. febrúar 2016

Hvað á að gera við Griffin?


Það væri hræsni af okkar hálfu að fara að gagnrýna mann fyrir að leggja hendur á vini sína, hvort sem um er að ræða körfuboltamann eða ekki. Góðir vinir geta verið alveg gjörsamlega óþolandi og stundum er bara ekki annað í stöðunni en að lemja þá aðeins.

Menn eins og Blake Griffin verða hinsvegar að reyna að hemja sig þegar kemur að þessu, því hann hefur allt of miklu að tapa. Það er víst of seint að reyna að ráðleggja honum - barnið er dottið ofan í þann brunn og löngu drukknað.

Öll gerum við mistök, þó það nú væri, en þau eru af dýrari og óþægilegri gerðinni sem hann Blake okkar gerði sig sekur um á dögunum, þegar hann ákvað að lemja 170 sentimetra háan vin sinn inni á og utan við veitingastað í Toronto. Við ætlum ekki að rekja þetta mál hér af því þetta eru gamlar fréttir og leiðinlegar. Við höfum alltaf meiri áhuga á að kryfja hvað svona lagað þýðir fyrir körfuboltann sjálfan.

Nú er Griffinn kominn með glóðurauga á báðum og ekki aðeins kominn í svörtu bókina fyrir asnaskap, heldur kórónaði hann þetta endanlega með því að mölva á sér hendina við að berja dreng tittinn vin sinn. Hvar er hafnaboltakylfa þegar menn þurfa á henni að halda?

Nei, svona grínlaust, þá eru þetta slæm tíðindi fyrir bæði Blake Griffin og Clippers... eða hvað?

Við ældum pínulítið í munninn þegar við sáum allar fyrirsagnirnar um að Clippers ætti að losa sig við Griffin eftir að upp komst um atvikið - bara höggva á hnútinn og skipta honum í burtu af því hann gerði mistök. Einmitt.

En allt þetta havarí í kring um Griffin fékk okkur til að hugsa aðeins málið - rýna aðeins í Clippers-liðið og skoða hvað er í gangi þar á bæ. Það er nefnilega komin upp helvíti skondin staða hjá liðinu, því eins og flest ykkar vita líklega, er Clippers búið að vinna næstum því alla körfuboltaleikina sína síðan Griffin meiddist um jólin.

Og það er fjandi merkilegt.

Nú er leikjaplanið hjá Doc Rivers og félögum reyndar ekki búið að vera nein helför og ef við skoðum þessa átján leiki sem liðið hefur spilað síðan Griffin datt út vegna fyrri meiðsla sinna á annan í jólum, er ekki beint hægt að segja að það sé að spila við Golden State og San Antonio til skiptis. 

Það er nóg af skítaliðum í NBA deildinni og Clippers-liðið er búið að glíma við nokkur þeirra síðan um jólin.

Málið er bara að liðið er búið að vinna fimmtán þeirra og tapa aðeins þremur. Það er fjandi gott fyrir hvaða lið sem er og það sem er athyglisverðast við þetta allt saman er að liðið var ekki nema 17-13 (57%) um jólin þegar Blake meiddist, en er búið að vinna 83% leikja sinna eftir að sá freknótti datt út!

Við vitum að lið eru vön að bíta í skjaldarrendur og leggja enn harðar að sér þegar lykilmaður eða menn detta út og oft ná þau að brúa bilið að einhverju leyti. En að það taki svona stórt stökk upp á við? Hvaða rugl er það?

Þarna komum við að kjarna málsins - og þar skiptir engu máli hvort Blake Griffin barði einhvern eða ekki, hvort hann hand- eða fótbrotnaði, eða hvort hann fílar Dave Lombardo eða Paul Bostaph. Það sem skiptir máli er hvort þetta Clippers-lið, með þennan mannskap, er yfir höfuð að gera sig.

Þetta er náttúrulega ekkert ný pæling - hvort Clippers sé að gera sig eður ei. Við erum öll búin að pæla í þessu á hverju vori í minnst þrjú ár. Það er eins og þeir séu alltaf hársbreidd frá því að gera eitthvað (meira) í úrslitakeppninni, en þetta vill einhvern veginn aldrei smella fyrir þá. 

Þið munið kannski hvernig þetta var síðasta vor, þegar við héldum ef til vill að nú yrði þetta ár Clippers þegar Griffin og félagar náðu að slá San Antonio út í epísku einvígi í fyrstu umferðinni - langbesta einvíginu í allri úrslitakeppninni - sem geislaði af hreinum gæðum.

En það er/var alltaf það sama uppi á teningnum hjá aumingja Clippers. Það er alltaf einhver Chris Paul meiddur og þeir ná alltaf að guggna á því. Skitan þeirra gegn Houston í vor var óafsakanleg og hefði ef til vill átt að marka einhvers konar endalok fyrir þennan mannskap, en þið munið að það er rosalega auðvelt að sitja við skrifborð í Laugardalnum og segja atvinnuíþróttafélagi sem fer með veltu Samherja í skúringagræjur hvernig það á að starfa.

Það er ofureðlilegt að menn séu ragir við að sprengja upp lið sem er þó ekki lengra frá takmarki sínu, því við megum ekki gleyma því að Clippers hefur oftar en ekki verið á eða við toppinn yfir bestu sóknarlið deildarinnar og þó varnarleikurinn, fráköstin og bekkurinn hafi verið það sem upp á vantaði. 

Það vantaði augljóslega eitthvað, en það vantar minna upp á hjá Clippers en hjá 25 öðrum klúbbum í deildinni.

Við erum búin að vera að spá í þetta púsluspil hjá Clippers í amk þrjú ár en þessi blússandi velgengni Clippers án hans síðustu vikur hefur fengið okkur til að hugsa dæmið upp á nýtt. Það er ekkert nýnæmi að Clippers gangi vel þó önnur hvor stórstjarnan detti út. 

Á síðustu og þarsíðustu leiktíð duttu bæði Chris Paul og Blake Griffin út í nokkra daga/vikur og liðið hélt ágætis dampi á meðan. Chris Paul tók við keflinu og spilaði eins og kóngur þegar Griffin datt út, nákvæmlega eins og hann er að gera núna. 

Og þegar Paul datt út í nokkra leiki síðast, fór Griffin frá því að vera frábær leikmaður yfir í að spila á MVP-kalíberi. 

Svona eins og hann spilaði í fyrstu tíu leikjunum í úrslitakeppninni í fyrra, áður en Houston-liðið svæfði hann og restina af Clippers-liðinu.

Sumir taka ef til vill ekki eftir því, eða pæla bara ekki í því, að mannskapurinn hjá Clippers-liðinu passar í rauninni ekkert brjálæðislega vel saman. 

Þar eigum við helst við þá Blake Griffin og DeAndre Jordan, sem báðum líður best þegar þeir eru troðandi yfir fólk eins og Zach Lowe útskýrði í grein sinni á dögunum (og mörgum greinum þar á undan). 

Byrjunarliðsmenn Clippers eru hinsvegar svo hæfileikaríkir að þeir ná að láta sóknarleikinn ganga allt að því fullkomlega upp þrátt fyrir að þeir Griffin og Jordan eigi það ef til vill til að þvælast aðeins fyrir hvor öðrum. 

Griffin gefur Jordan teiginn eftir og spilar uppi á lyklinum í staðinn og hefur myndað bullandi kemistíu með þeim Jordan og Paul, þar sem þeir skiptast á að grýta boltanum eitthvað út í loftið og láta Jordan stökkva á eftir honum og meiða fólk með honum. Engin eldflaugaverkfræði, en ákaflega hagkvæmt og árangursríkt, ekki síst gegn slakari vörnum deildarinnar.

Ofantalið eru þekktar staðreyndir, en téður Lowe fór með Griffin-pælinguna skrefinu lengra í áðurnefndum ljómandi fínum pistli sínum á ESPN á dögunum þar sem henn veltir því fyrir sér hvort framherjinn magnaði sé ef til vill ekki bara biti sem passi illa í Clippers-púslið heldur í raun í deildina alla. Það er mikið til í þessu og við höfum oft pælt í þessu.

Blake Griffin er svívirðilega hæfileikaríkur körfuboltamaður með magnað vopnabúr, en það er aftur hægt að setja spurningamerki við það hvort hann passar inn í þessa nýju NBA deild sem hann er partur af. Nú ætti það að vera alveg gefið að maður með hæfileika eins og Griffin ætti að geta blómstrað í hvaða liði sem er - og hann gerir það á sinn hátt - en þessir fáu veikleikar sem hann hefur, eru aftur á móti frekar óheppilegir fyrir mann í hans stöðu.

Griffin er kraftframherji, fjarki, og nútímafjarkar þurfa helst að geta gert nokkra mjög afmarkaða hluti.

Í hinum fullkomna heimi eru allir fjarkar eins og blanda af Draymond Green hjá Golden State og Serge Ibaka hjá Oklahoma hvað það varðar að þeir eru bæði léttir á fótum og geta varið körfuna í vörn og geta teygt á vörnum út fyrir þriggja stiga línu í sókninni og helst verið góðir sendingamenn. 

Með öðrum orðum, þurfa stórir menn í NBA í dag að geta spilað þrjár stöður í vörn og einar tvær í sókninni. Þetta eru glórulausar kröfur, en svona er þetta víst í dag.

Blake Griffin tékkar í nokkur boxin. Hann er með frábæra boltameðferð og framúrskarandi sendingamaður, svo góður að okkur er til efs að sé hægt að finna tíu leikmenn í sögunni í hans stöðu sem hafa gert þetta betur. En þá er það víst að verða upptalið.

Griffin er að vísu ljómandi fínn af millifærinu og út á átján til tuttugu fetin en þó hann sé aðeins farinn að fikta við að taka 3ja stiga skot, er ekki hægt að tikka í það box hjá honum ennþá. Mikilvægasta atriðið er svo líklega varnarleikurinn, það að verja dolluna sjálfa. Það er jú eitt mikilvægasta atriðið í körfuknattleik, en þar vantar nokkuð upp á hjá Griffin. Hann getur hoppað til tunglsins og til baka, en hann er bara ekki skotblokkari eins og menn eins og Serge Ibaka.

Zach Lowe kemst að þeirri niðurstöðu í grein sinni að líklega væri hollast fyrir Doc Rivers og félaga á skrifstofunni hjá Clippers að byrja á því að reyna að skipta DeAndre Jordan eða Chris Paul í burtu áður en þeir hugleiða að losa sig við Griffin.

Það getur vel verið að þú hafir skoðun á því hvort félagið ætti að losa einhvern af þeim eða alla, en okkur þykir ekki ástæða til að þvinga fram einhvert svar við þeirri spurningu. 

Við höfum bara gaman af því að analísera Clippers-liðið og spilamennsku eins besta körfuboltamanns heims.

Lið sem er með Chris Paul, Blake Griffin, DeAndre Jordan og JJ Redick innanborðs getur ekki unnið innan við 50 leiki þó það fylli byrjunarliðið og bekkinn með veðurfræðingum af Rúv. 

Eins og við komum inn á áðan, hlýtur að vera freistandi að reyna að hanga á þessu liði og treysta á að það detti í lukkupottinn einu sinni af því það er svo grátlega nálægt því að keppa um titil. Eða var það, því sennilega er Warriors-liðið í dag bara orðið allt of sterkt fyrir alla mótherja sína í deildinni.

En það er líka þar sem hnífurinn stendur í beljunni. Rivers og félagar eru búnir að þenja leikmannahópinn eins og þeir geta í allar áttir og hafa með örvæntingarfullum hætti reynt að fylla í skörðin sem staðið hafa opin hjá liðinu í nokkur ár (eins og til dæmis minni framherja staðan sem skiptist á milli þriggja manna sem valda hennni ekki í dag).

Erfiðasta púslið í NBA deildinni er alltaf blessuð launamálin og að fá þau til að ganga upp. Það er séð fyrir hverri krónu hjá Clippers og í raun er félagið bundið í báða skó, en það er líka umræða sem okkur dettur ekki í hug að glíma við, enda erum við engir hagfræðingar.

Því miður, eru yfir 90% líkur á því að við séum búin að sjá þessa bestu kynslóð í Los Angeles-sögu Clippers ná eins langt og hún mun nokkru sinni fara, því það eru innan við tíu prósent líkur á því að félagið geti vaðið út á leikmannamarkaðinn og beitt einhverjum sjónhverfingum og töfrabrögðum til að bæta sig nógu mikið til að verða raunverulegt meistaraefni.

Svona er það djöfullega erfitt að vinna í NBA deildinni. Hvort sem eigandi félagsins er elliær kynþáttahatari eða geðsjúkur grilljarðamæringur.laugardagur, 30. janúar 2016

Golden State lifir góðu lífi með þristinum


Dýrategundir með fjölbreytt fæðuval eiga mikið betri lífslíkur en þau sem lifa á einhæfri fæðu. Þannig kemur það fyrir annað slagið að heilu stofnarnir verða fyrir stórum höggum ef helsta, eða jafnvel eina fæðutegund þeirra hverfur úr umhverfinu af einhverjum ástæðum.

Dæmi um dýr sem neyta fábreyttrar fæðu eru nokkrar slöngutegundir sem éta nær engöngu fuglaegg, ránfuglategundir sem lifa nánast alveg á sniglum og flestir kannast við risapönduna, sem gerir nánast ekki nokkuð skapaðan hlut annað en að éta bambus, ef hún er vakandi á annað borð. 

Bjarndýrinu húðlata til happs, vill svo vel til að oftast er nóg til af bambus á þeim svæðum sem pönduna er að finna, svo hún kemst nokkuð örugglega upp með það að neyta svo einhæfrar og tölum nú ekki um næringarsnauðrar fæðu.

Frændur pöndunnar, grábirnirnir í Bandaríkjunum, Kanada og Alaska, eru alveg úti á hinum endanum í fæðumenginu. 

Þeir éta bókstaflega allt sem að kjafti kemur og verða líka að gera það til að lifa af. 

Þeir detta í eina og eina veislu eins og þegar laxinn gengur upp í árnar til að hrygna og gleymir sér í gleðinni, en oftar kemur fyrir að fæðuval er af skornum skammti og þá þurfa þeir stundum að leika af fingrum fram og éta allt frá reyniberjum til reiðhjóla. 

Þannig mætti áætla að ef grábjörninn væri eins matvandur og frænka hans pandan, væri stofninn líklega í enn meiri útrýmingarhættu en hann er í dag, eða það sem meira er - útdauður.

Þið voruð örugglega farin að efast um að þessi fræði kæmu körfubolta nokkuð við, en auðvitað gera þau það. Það er nefnilega eins með körfubolta og dýraríkið - körfuboltalið geta ekki ætlast til þess að lifa af ef þau lifa á einhæfri fæðu.
Ástæðan fyrir því að við fórum af stað með þessa hugleiðingu er allt að því geðbiluð skotgleði meistara Golden State Warriors fyrir utan þriggja stiga línuna og árangurinn sem liðið hefur náð með - nú eða eða þrátt fyrir - að taka svona mikið af langskotum. 

Hættu bara að gretta þig og smelltu á myndina hérna fyrir ofan svo þú sjáir tölfræðina almennilega. Bæði hvað eru margir leikmenn hjá Warriors að skjóta langt yfir meðallagi og hvað liðið allt ber höfuð og herðar yfir önnur lið hvað varðar langskotin. Þetta er náttúrulega ekki í lagi.

Hver hefur jú ekki heyrt klisjuna "live by the three - die by the three." Þessi lína lifði mjög góðu lífi í nokkra áratugi í NBA deildinni og var gjarnan notuð sem skammaryrði gegn skotglöðum liðum, sérstaklega þegar þau áttu slæma daga og hittu ekki neitt (og töpuðu). 

Lifðu með þristinum - deyðu með þristinum. 

Auðvitað er ýmislegt til í þessu, þó þetta sé opið hugtak, en það er alveg klárt mál að Golden State hefur breytt þessum viðhorfum eitthvað. 

Við höfum jú aldrei séð lið eins og Warriors áður og sérstaklega ekki bakvarðapar eins og Steph Curry og Klay Thompson.

En við verðum að gæta þess að lesa vel. Það er nefnilega ekki sama hvort þú lifir með þristinum eða lifir á þristinum. 

Golden State getur stundum leyft sér að lifa á þristinum í styttri sprettum og jafnvel heilu leikina, en þegar á heildina er litið lifir liðið auðvitað með þristinum en ekki á honum og þar er mergurinn málsins. 

Það væri einhæf fæða fyrir körfuboltalið að byggja allt sitt á eintómum þriggja stiga skotum (eins og Houston gerir stundum), eintómum æsóum og hnoði (eins og Toronto gerir stundum), eintómu stjórnleysi og geðveiki (eins og Sacramento gerir oftast) eða eintómum varnarleik (eins og Chicago og Memphis gera stundum).

En eins og þið vitið rúlla meistararnir ekki svona. Þeir eru með þetta allt saman

Þeir spila frábæran varnarleik og fjölbreyttan sóknarleik, en svo er þriggja stiga skotið fyrir þá svipað og laxagöngurnar fyrir grábirnina. Þá verða þeir svona eins og Egill Helga á all you can eat og þá er hollara að vera bara ekki fyrir.

Nei, Golden State lifir með þristinum, ekki á honum, og vinnur meira að segja af og til leiki þar sem það hittir ekki sjitt fyrir utan. Warriors er búið að mastera langskotin betur en nokkuð annað lið í NBA sögunni. 

Það fyndna við þetta er að þeir geta betur, geta enn bætt sig alveg helling. Steve Kerr er rétt að byrja með þetta lið og þeir busl-bræður Klay og Curry eru rétt að byrja líka.

Það er kannski dálítið kjánalegt að það hafi tekið menn yfir þrjá áratugi að byrja að nýta sér 3ja stiga skotið til fullnustu í NBA deildinni, en það borgar sig ekki að væla yfir því. 

Við fáum að fylgjast með því gerast þessi dægrin og bónusinn er að við fáum að horfa á lið eins og Golden State færa út kvíarnar og menn eins og Stephen Curry slá öll metin.

Það er ekki ónýtt. Vissulega, fjölbreytt og fallegt veisluborð alla daga.

föstudagur, 29. janúar 2016

Við mælum með þessu í kvöldEr þetta Green?


Nú er búið að tilkynna hvaða leikmenn skipa Austur- og Vesturdeildarúrvalið í Stjörnuleiknum í NBA sem fram fer í Toronto eftir tvær vikur. Það er bolurinn sem fær að kjósa byrjunarliðin en það eru (allir) þjálfararnir í deildinni sem ákveða hvaða leikmenn skipa varamannabekkinn.

Án þess að við höfum rannsakað það vísindalega, sýnist okkur ekki mikið um stórskandala þegar kemur að vali þjálfaranna þetta árið. Í fljótu bragði ætti Damian Lillard auðvitað að vera í liðinu á kostnað Kobe Bryant, en svo hefur það örugglega verið höfuðverkur fyrir þjálfarana að skilja goðsagnir eins og Tim Duncan og Dirk Nowitzki eftir heima. 

Nowitzki hefði örugglega verið til í að taka einn Stjörnuleik í viðbót, en eitthvað segir okkur að Tim Duncan langi heldur að slaka á með fjölskyldunni heldur en að fara í þriggja sólarhringa fjölmiðlamaraþonið sem helgin er.

Þegar valið í Stjörnuleikinn ber á góma verður okkur oft hugsað til þess hvað gerðist við þetta sama tækifæri árið 1990, en það er í fyrsta skipti sem við munum eftir því að valið í Stjörnuleikinn hafi farið í taugarnar á okkur. Og það hefur gert það ansi oft síðan.

Það sem fór svona heiftarlega í taugarnar á okkur fyrir aldarfjórðungi var líka vinsældakosning áhangenda - og það sem meira er - var það líka út af Lakers-manni sem hafði ekkert í Stjörnuleikinn að gera. 

Í dag er það Kobe Bryant en árið 1990 var það A.C. Green sem fór öfugt ofan í okkur.

A.C. Green var ágætis körfuboltamaður og gengdi auðvitað lykilhlutverki hjá sigursælu liði Los Angeles Lakers á níunda áratugnum. 

En að hann - maður sem skoraði innan við tíu stig að meðaltali í leik á umræddri leiktíð - væri kosinn í byrjunarliðið í Stjörnuleiknum í staðinn fyrir Karl Malone? 

Það var bara mesti skandall í heimi!

En svona var þetta og svona er þetta enn þann dag í dag og ekkert við því að gera. Þetta var samt dálítið gróft dæmi þarna 1990 og það voru fleiri gramir yfir þessu en við. Karl Malone varð brjálaður þegar hann frétti að 13 stiga hreinn sveinn með krullur hefði verið kosinn inn í byrjunarliðið á sinn kostnað.

Malone var afar óhress með þetta og ákvað að taka gremju sína út á næsta andstæðingi Utah Jazz á körfuboltavellinum, Milwaukee Bucks. Það gerði hann svo um munaði, því hann skoraði 61 stig í leiknum, hirti 18 fráköst og hitti úr 21 af 26 skotum utan af velli (19 af 23 á línunni) á aðeins 33 mínútum í 144-96 sigri Utah.*  Svona á að gefa út yfirlýsingar.

 Malone var kjörinn leikmaður Stjörnuleiksins í Houston árið áður (myndin hér fyrir ofan), en hvort sem það var fýla eða ekki, þá bar hann við meiðslum og mætti hann ekki í Stjörnuleikinn árið 1990 þrátt fyrir að hafa verið valinn í hann af þjálfurunum seinna.

"Ég get annað hvort farið heim til Louisiana að veiða eða farið til Miami. Akkúrat núna er ansi freistandi að fara að veiða," ansaði Malone þegar hann var spurður út í tilfinningar sínar að vera ekki valinn í byrjunarliðið. Þetta kom við egóið á honum, sem var risavaxið (hann talaði alltaf um sig í 3. persónu) en viðkvæmara en lappirnar á Greg Oden.

Karl Malone var framúrskarandi leikmaður á þessum árum og skilaði til að mynda 31 stigi og 11 fráköstum að meðaltali í leik og skaut 56% utan af velli leiktíðina ´89-´90. 

Ekki var hann verri í leikjunum fjórum gegn Lakers þennan vetur, þar sem hann skoraði 34 stig að meðaltali, hirti 9 fráköst og skaut 61%.

Einhver gæti ef til vill giskað á að ástæðan fyrir Stjörnuleiksdissinu á Malone hefði verið staða liðs hans í töflunni, því leikmenn í lélegum liðum fá jú færri atkvæði. 

En því var ekki að skipta þarna. Utah var alveg á hælunum á LA Lakers þegar þarna kom við sögu. Jazzararnir voru með 29 sigra og 11 töp, meðan Lakers var með 31 sigur og 9 töp.

Það var misjafnt hvort Malone var valinn á bekk eða í byrjunarlið í Stjörnuleikjunum sem fylgdu á eftir þeim dramatíska árið 1990, en hann mætti í þá á hverju ári þangað til árið 2002 þegar hann var valinn í síðasta skipti en sat vegna meiðsla.

Við þökkum Morgunblaðinu fyrir að leyfa okkur að birta blaðagreinina um reiðikastið hans Karl Malone hérna á vefsvæðinu, en hún er að sjálfssögðu skrifuð af Gunnari Valgeirssyni í Bandaríkjunum. Gunnar gerði vel í að fjalla um deildina fögru hér áður, þegar lítið sem ekkert var að finna um NBA boltann annað en tveggja daga gömul úrslit í Mogganum.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þú hlýtur að vera að pæla í því hvað John Stockton gaf margar stoðsendingar í risaleiknum hans Malone, þar sem Utah setti 144 stig á töfluna. Þær voru reyndar ekki nema 16 í þetta skiptið, sem er ekki hægt að kalla annað en vonbrigði hjá manni sem var jú einu sinni með næstum því fimmtán stoðsendingar að meðaltali í leik. Dálítið undarlegt.

Tímamót


NBA Stjörnuleikurinn árið 2016 fer fram í Toronto á Valentínusardaginn, þann 14. nóvember næstkomandi. Þetta er vitanlega sunnudagur. Það sem er sérstakt við þennan leik og í rauninni merkilegast af öllu, er að það verður í fyrsta skipti síðan árið 1997 sem hvorki Tim Duncan né Dirk Nowitzki tekur þátt í Stjörnuleiknum í NBA.

Önnur gömul stjarna, Kobe Bryant, fékk að lafa inni í leiknum á lokaárinu sínu út á vinsældir sínar, því auðvitað hefur hann ekkert í leikinn að gera hvað spilamennskuna hans í vetur varðar.

Já, þetta eru sannarlega tímamót. Við sjáum engan þeirra í næsta Stjörnuleik. Svona verða kynslóðaskiptin í þessu eins og öðru. Við erum að fara að kveðja nokkrar af stærstu goðsögnum leiksins eftir eitthvað sem við mælum líklega í mánuðum en ekki árum.

Warriors-menn skora eins og Suns-lið Barkley


Metin hrannast upp hjá Golden State þessa dagana og reyndar San Antonio líka. Lætin í meisturunum eru eftirtektarverð, því í stað þess að spila eins og þeir séu saddir eftir titilinn, spila þeir eins og þeir séu á persónulegri vendettu gegn hverju einasta liði deildarinnar. Alltaf sömu krúttin, en spila eins og þeir séu brjálaðir. Eins og þeir séu í sjómann við gaurinn sem henti dúkku litlu systur þeirra í pollinn.

Ekki dettur okkur í hug að reyna að fiska upp öll metin sem þetta Warriors-lið er að slá um þessar mundir, en þó langar okkur að vekja athygli á nokkum skemmtilegum molum. Fyrsti molinn hefur með skemmtanagildið að gera og undirstrikar hvað Golden State er í senn sterkt og skemmtilegt lið.

Þið munið að helsta ástæðan fyrir því að Golden State er besta lið í heimi er að það spilar svo góða vörn. Liðið spilar frábæran sóknarleik, sem alltaf er að verða betri, en það er vörnin sem er grunnurinn og hún ræður. Golden State er best af því þeir gera allt rétt - og þeir sem gera rétt, sjá til þess að þétta varnarleikinn áður en þeir fara í sóknarkrúsídúllur.


Ókei, en nú er sóknarleikurinn hjá Golden State sem sagt að verða sama bomban og varnarleikurinn. Liðið virðist alltaf vera að skora meira og meira og þó hluta af því megi tengja tempóinu sem liðið spilar á (sem er náttla ansi hátt), er hraðinn ekki allt.

Golden State er nefnilega komið í óld skúl spilamennsku núna og farið að skora yfir 120 stig leik eftir leik, svona eins og liðið gerði hjá Don Nelson í kring um 1990. Og það var ekki leiðinlegt að horfa á það lið spila körfubolta.

Nú er svo komið að Golden State er búið að vinna fimm leiki í röð og er búið að skora 120+ stig í þeim öllum. Þetta gerist ekki á hverjum degi og liðið sem afrekaði síðast að skora svona hrikalega var heldur ekkert smálið. Það var Phoenix-liðið hans Charles Barkley frá árinu 1993.
Þetta Suns-lið vann fimm í röð í febrúar á fyrsta árinu hans Barkley með liðinu, þar sem það skoraði ekki undir 121 stigi í neinum þeirra og vann þá líka alla. Eins og þið sjáið á rándýru töflunni sem við klipptum út handa ykkur, var þetta Suns-lið þeirra Barkley, Kevin Johnson og Dan Majerle ekki í teljandi vandræðum með að skora og gerði það reyndar liða best í deildarkeppninni þennan veturinn (þó það hafi tapað fyrir Chicago í lokaúrslitunum sumarið á eftir).

Enn sjaldgæfara afrek hjá Warriors var að vinna þrjá af fjórum leikjum með 30+ stigum, en samkvæmt Íþróttastofu Elíasar hafði ekkert lið unnið svo hrikalega síðan ofurlið Los Angeles Lakers byrjaði almanaksárið 1987 með álíka látum.

Golden State er núna búið að vinna þrjá leiki í röð þar sem það hefur aldrei lent undir á neinum tímapunkti í leiknum og er alls búið að eiga tíu slíka leiki í vetur.

Það er helmingi oftar en liðin sem koma næst - Chicago, Boston og San Antonio.

Stephen Curry er líka að hóta því að slá enn eitt metið, því hann skoraði þriggja stiga körfu í 117. leiknum sínum í röð í gærkvöldi og nálgast því NBA met Kyle Korver, sem setti þrist í 127 leikjum í röð fyrir ekki löngu síðan.

Bæði Golden State og San Antonio eru að hóta því að setja met í heimasigrum í vetur. San Antonio er þegar búið að setja met yfir flesta sigra í röð á heimavelli í byrjun leiktíðar, en það hefur unnið 25 fyrstu heimaleikina sína í vetur.

Golden State er auðvitað ekki búið að tapa heima heldur, aðeins búið að spila færri heimaleiki (22-0). Warriors-liðið er hinsvegar á lengri sigurgöngu á heimavelli í heildina, því þegar það skellti Dallas í nótt sem leið, var það fertugasti sigur liðsins í röð á heimavelli - rispa sem nær nú yfir ár aftur í tímann.

Með 40. heimasigrinum í röð, jafnaði Golden State árangur Orlando Magic frá árunum 1994-96, sem er næstbesti árangur í sögu NBA. Það er Chicago Bulls frá árunum 1994-96 sem hefur unnið flesta heimaleiki í röð í sögunni - fjörutíu og fjóra.

Og er Golden State að fara að tæta það met í sig eins og öll önnur?

Það verður alveg að koma í ljós, en það gæti orðið nokkuð snúið, því andstæðingarnir í næstu fjórum heimaleikjum Warriors eru Oklahoma, Houston, Atlanta og Oklahoma aftur. Ef liðið lokar þessu, þarf það svo að vinna Orlando þann 7. mars til að hrifsa metið af Bulls.

Skiljanlega hefur metið yfir flesta sigra á tímabili verið mikið í umræðunni í ljósi þessarar frábæru byrjunar hjá Golden State í vetur. Margir veðja á að Warriors geti slegið 72 sigra met Chicago Bulls frá miðjum tíunda áratugnum.

Við ætlum ekki að spá mikið í það núna, en ef þið hafið áhuga á að velta því fyrir ykkur hvort Stephen Curry og félagar geta slegið met þjálfara síns (Steve Kerr, þjálfari Warriors, lék með Chicago-liðinu sem á metið), mælum við með því að þið fylgist vel með liðinu í febrúar. Það eru nefnilega nokkur hressandi ferðalög fram undan hjá Warriors á næstu vikum.

fimmtudagur, 28. janúar 2016

laugardagur, 23. janúar 2016

Stephen Curry: Því ekki að skjóta frá miðju?


Stephen Curry spilaði alveg einstaklega Stephen Curry-legan leik í nótt þegar Golden State vann eitthvað í kring um 800. leikinn sinn á tímabilinu með því að skella Indiana á heimavelli 122-110.

Curry bauð upp á 39/10/12 dúllugang (sjöundu þrennuna á ferlinum) og átta þrista, en það var ekki nóg. Hann ákvað líka að skjóta einu sinni á körfuna frá sínum vallarhelmingi, en féll því miður á tíma við það svo karfan var ekki góð.

Þá er ekki annað en henda í aðra. Við hefðum sagt "reyna" að henda í aðra, en Steph Curry er ekki í "reyna"-bransanum frekar en Liverpool. Hann hittir bara alltaf, enda er það miklu betra þegar á heildina er litið.Einu sinni þótti það stórmerkilegur hlutur ef leikmaður í NBA deildinni skoraði átta þriggja stiga körfur í einum og sama leiknum, en stórskotahríð Curry í vetur hefur gert það að verkum að nú þykir það álíka merkilegt og táknmálsfréttatími. Þetta var í NÍUNDA skipti í vetur sem Curry skorar átta þrista eða meira í leik, sem er NBA met og auðvitað mjög eðlilegt.

Þú veist væntanlega að tímabilið er jú hálfnað! Drengurinn ætlar í 400 þrista í vetur. Þessi geimvera.

Hann setti NBA met með 286 þristum á síðustu leiktíð en er kominn í 204 þrista í aðeins 42 leikjum á þessari leiktíð.

Ef hann heldur áfram á sama skriði út veturinn, verða tuttugu leikir eftir af tímabilinu þegar hann slær metið sitt. Sem er svoooo eðlilegt.

NBA metið yfir flestar þriggja stiga körfur í leik er í eigu Donyell Marshall (Toronto 2005) og Kobe Bryant (Lakers 2003), en þeir skoruðu tólf þrista í einum og sama leiknum (Marshall var með nítján tilraunir, Kobe átján).

Curry á best ellefu þrista í leik (eins og félagi hans Klay Thompson og nokkrir aðrir) sem hann setti niður í aðeins þrettán tilraunum þegar hann skaut New York til andskotans í febrúar árið 2013. Þar setti hann stigametið sitt með 54 stigum.

Eins og góður maður hafði orð á á Twitter í nótt, er það eiginlega með ólíkindum að Stephen Curry skuli ekki eiga NBA metið yfir flesta þrista í leik í ljósi þess að hann er gjörsamlega trylltur í langskotunum í vetur (ellefu tilraunir í leik) - og ekki bara það - heldur hittir hann vel líka (5 þristum í leik).

Það kæmi engum á óvart þó Curry færi að slá þetta met og við tippum á að þegar hann gerir það á annað borð, eigi hann eftir að setja fimmtán þrista en ekki þessa þrettán sem þarf til að slá metið.

Það eina sem mælir á móti því að Curry nái þessum áfanga er erfðaefnið í honum, því þó hann sé magnaðasta skytta í sögu NBA deildarinnar, skortir hann samviskuleysi manna eins og Kobe Bryant til að eltast við met.

Það er náttúrulega dálítið sérstakt þegar menn er farið að skorta leysi, en þið ættuð að vera farin að læra það núna að það er ekkert eðlilegt þegar Stephen Curry er annars vegar.