fimmtudagur, 17. apríl 2014

Smá tölur


Hérna er listi yfir þá sem hafa troðið oftast í NBA í vetur og hægra megin er svo listi yfir þá leikmenn sem hafa látið hvað oftast verja frá sér skotin. Michael Carter Williams tekur þann titil eiginlega, þar sem Rose blessaður spilaði svo lítið.


miðvikudagur, 16. apríl 2014

Barnett að kveðja


Þeir segja að Jim Barnett, maðurinn sem hefur lýst leikjum Golden State Warriors í gegn um súrt og sætt í þrjá áratugi, taki sinn síðasta leik í kvöld. Forráðamenn félagsins tilkynntu að samningur yrði ekki endurnýjaður við Barnett og vitnað var í gömlu "sameiginlegu ákvörðunina." Einmitt.

Við verðum bara að segja eins og er, að þetta eru drullu leiðinlegar fréttir! Það er eins og ekkert megi endast lengur. Verður alltaf að breyta öllu og fokka í öllu, helst því sem virkar, og fá það til að virka ekki. Helvítis rugl. Það verður hrikaleg eftirsjá í Barnett. Hann er algjör fagmaður og er á pari við þess gömlu góðu eins og Ralph Lawler hjá Clippers. Hann hefur fylgt okkur í gegn um ófáa leikina og alltaf náði hann að gera hlutina áhugaverða, þó liðið hans gæti ekki skít árum saman.

Þeir sem vilja sýna Barnett stuðning geta farið inn á þessa síðu. Það skiptir máli. #KeepJim


Deildakeppninni lýkur í nótt


Í kvöld og nótt fer fram síðasta umferðin í deildakeppninni í NBA, þar sem öll 30 liðin verða í eldlínunni. Enn er ekki endanlega ljóst hvaða lið munu mætast í úrslitakeppninni og því eru leikir eins og viðureign Memphis og Dallas gríðarlega áhugaverðir.

Memphis og Dallas eru nefnilega að spila hreinan úrslitaleik upp á 7. sætið í Vesturdeildinni og losna þar með við að mæta San Antonio skrímslinu í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Liðið sem vinnur leikinn mætir annað hvort Oklahoma eða LA Clippers í fyrstu umferð. Til mikils er að vinna, því Memphis og Dallas eru bæði 0-4 á móti Spurs í vetur.

Sigurvegarinn í slag Griz og Mavs nær þar með í 50. sigur sinn á leiktíðinni og verður þá sjöunda liðið í Vesturdeildinni til að vinna 50 leiki. Metið er átta lið, en það var sett í vestrinu árin 2008 og 2010.

Útlit er fyrir að liðið í 8. sætinu í Vesturdeildinni myndi ná þriðja sætinu inn í úrslitakeppnina ef það væri í Austurdeildinni.

Oklahoma tryggir sér annað sætið í vestrinu með sigri á Detroit á heimavelli í nótt, en undirmannað Clippers-liðið þarf að sækja sigur til Portland og treysta á að Oklahoma tapi til að eiga séns á þriðja sætinu. Oklahoma er búið að vinna síðustu níu leikina sína gegn Detroit.

Svo er víst eitthvað að gerast í Austurdeildinni...

Meiðsli Bogut gætu eyðilagt áform Warriors


Þú ferð út á lífið og hittir föngulega dömu. Ferð með henni heim og leikar taka að æsast. Þið látið vel að hvort öðru og ákveðið að færa aksjónið inn í svefnherbergi. Svo þegar þú klæðir hana úr buxunum... kemur í ljós að hún er með bleyju. Þú nuddar augun og athugar hvort þig er að dreyma, en hjá þessu verður ekki komist. Hún er með bleyju, hvort sem þér líkar betur eða verr.

Svona líður stuðningsmönnum Golden State Warriors eftir að þeir fréttu að Andrew Bogut væri rifbeinsbrotinn og ætti því eftir að missa af úrslitakeppninni.

Eftir langan og strangan vetur var fjörið loksins að byrja. Loksins gátu strákarnir hans Mark Jackson farið að sýna okkur að ágætur árangur þeirra í úrslitakeppninni í fyrra* hafi ekki verið nein tilviljun.

En þá gerist þetta.

Svona er þetta alltaf hjá Golden State og svona hefur þetta raunar alltaf verið hjá Andrew Bogut, hvers heilsufar hefur verið kraftaverk síðustu mánuði miðað við vesenið á honum undanfarin ár.

Í fyrra var það David Lee sem meiddist í úrslitakeppninni og gat lítið beitt sér eftir það. Stephen Curry var líka meiddur þá og er eiginlega alltaf meiddur, því ökklarnir á honum eru ónýtir.

Curry var þó búinn að halda sæmilegri heilsu í vetur eins og Bogut, en nú er sú heilsa úr sögunni eins og hún verður fljótlega hjá keppendunum í þættinum Feitasti einstaklingurinn sem missir fáránlega mikla þyngd á skömmum tíma í sjónvarpi, en dettur svo strax aftur í það og verður feitur aftur af því að fólk sem er svona feitt á oftast við andlegan sjúkdóm að stríða sem kemur grænmeti og hlaupabrettum óskaplega lítið við - sem verið hefur á dagskrá í íslensku sjónvarpi undanfarið.

Þetta er í alla staði ömurlegt dæmi. Og þá erum við að tala um meiðslin, ekki þáttinn (Immit).

Það er kannski of mikil bölsýni að ætla að dæma Warriors úr leik í úrslitakeppninni bara af því það missir einn mann í meiðsli, en staðreyndin er bara sú að þessi maður er mikilvægasti leikmaður liðsins í varnarleiknum, með fullri virðingu fyrir frábærum varnarmanni eins og Andre Iguodala.

Það sem gerir þetta enn verra, er að maðurinn sem ætti með öllu að koma inn í stað Bogut og var meira að segja í byrjunarliði Warriors í helmingi leikja liðsins á síðustu leiktíð, Festus Ezeli, er líka meiddur. Hann er reyndar byrjaður að æfa eftir að hafa verið úr leik í allan vetur, en hann á ekki eftir að gera mikið í úrslitakeppninni ef hann kemur þá yfir höfuð við sögu.

Við erum því að tala um að Golden State sé að fara inn í úrslitakeppnina með Jermaine O´Neal sem eina miðherjann sem Mark Jackson treystir þokkalega. Það væru ágætar fréttir af við værum stödd á árinu 2004, en eins og þið vitið er 2014 núna og það boðar ekki gott þegar haft er í huga að O´Neal var búinn á því strax árið 2009, þegar hann gerði sig bókstaflega að fífli í úrslitakeppninni fyrir framan augun á okkur.

Það stefnir í að mótherji Golden State í úrslitakeppninni verði LA Clippers og ljóst að miðherjalaust Warriors-liðið getur ekki nýtt sér einn af veikleikum Clippers-liðsins sem er skortur á sentimetrum og kjöti í teignum.

Meiðsli Bogut þýða að það verður ekkert annað í boði hjá Warriors en að spila minnibolta. Allir vita að það fer liðinu langbest að tefla fram snaggaralegum leikmönnum undir tvo metra á hæð og hlaupa svo og skjóta eins og andskotinn væri á hælunum á þeim.

Bogut hefur reyndar alltaf verið með í myndinni í þessari fantasíu. David Lee hefur verið málaður út úr henni, sérstaklega eftir úrslitakeppnina í fyrra, en Bogut er alltaf inni.

En nú er hann ekkert inni.

Við gætum kannski trúað því upp á LA Clippers að drulla á sig ef Vinnie del Negro væri enn að þjálfa liðið, en hann er blessunarlega farinn og Doc Rivers er tekinn við af honum.

Undir stjórn Rivers hefur Clippers-liðið bætt sig talsvert þrátt fyrir meiðslavesen og því hefði eflaust verið lítil ástæða til að tippa á Warriors í einvígi liðanna, jafnvel þó Bogut hefði verið inni í myndinni.

Því miður fyrir Warriors, sjáum við því fyrir okkur að öfugt við í fyrra, þegar liðið var heppið með andstæðing og sló Denver út í fyrstu umferð, verði enginn Öskubuskuandi svífandi yfir vötnum í Oakland þetta árið.

Mark Jackson á eftir að predika mikið og við eigum alveg bókað eftir að fá heimsklassadrama í leikjum Golden State í úrslitakeppninni.

Það er hinsvegar spurning hvort Jackson gæti þurft að leita annað með predikanir sínar á næsta tímabili ef illa fer hjá Warriors. Það væri líklega ósanngjarnt í ljósi mótlætisins, en í NBA deildinni snýst þetta um að éta eða verða étinn, hvort sem menn eru andlegir á því eður ei.

* - Við mælum sérstaklega með viðtalinu við George Karl í samantektinni um fyrstu umferðina í úrslitakeppnina í fyrra sem er að finna þegar smellt er á tengilinn. Það er auðvitað eðlilegt.

Lillard móðgar


Damian Lillard er margt til lista lagt en leiklistin virðist ekki vera eitt af því sem hann gerir vel. Í þessari sniðugu auglýsingu sjáum við Lillard móðga þá Chris Webber og Karl Malone.

mánudagur, 14. apríl 2014

sunnudagur, 6. apríl 2014

Komið að Ká Dé?


Flestir eru nú þegar búnir að velja. Svo virðist sem öll vötn renni til Oklahoma núna. Ef Oklahoma á eitthvað sameiginlegt með Dýrafirði, þannig. Það kæmi okkur gríðarlega á óvart ef Kevin Durant yrði ekki kjörinn verðmætasti leikmaður ársins í NBA árið 2014. LeBron James er alveg eins vel að þessu kominn, en það er langt síðan að fjölmiðlamenn ákváðu að þetta ætti eftir að verða árið hans Kevin Durant. Og það er bara stakur sómi af því.

LeBron James verður nákvæmlega aldrei leiður á því að vinna MVP-styttur og nú er svo komið að með hverri styttunni sem hann fer með heim, kemst hann ofar í últra-elítu NBA deildarinnar. Durant er hinsvegar orðinn dauðleiður á því að lenda alltaf í öðru sæti og spilamennska hans í vetur hefur farið ansi langt með að tryggja honum það.

LeBron James er besti körfuboltamaður í heiminum, um það þýðir ekkert að deila. En þið vitið að hann hefur öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa núna en að vinna MVP-verðlaun. Til dæmis að hvíla sig og halda heilsu til að hafa orku og heilsu í að reyna að komast í lokaúrslitin fjórða árið í röð. Það tekst ekki nema bestu liðum allra tíma.

Á föndrinu þarna fyrir ofan sérðu til gamans samanburð á skotkortunum þeirra félaga í vetur. Taktu sérstaklega eftir ökónómíkinni hjá Kevin Durant, sem virðist ekki eiga veikan punkt á gólfinu þegar hann er á annað borð kominn yfir miðju.

miðvikudagur, 2. apríl 2014

Einmittmánudagur, 31. mars 2014

Seðlance Stephenson


Hinn litríki Lance Stephenson hjá Indiana birti þessa mynd víst á Instagramminu sínu um daginn. Þetta ku hafa verið ein milljón dollara í reiðufé. Það fyndna við þetta er að Stephenson er einn tekjulægsti leikmaður NBA deildarinnar, því hann rétt skríður yfir milljón dollara í laun á þessu ári.

Þetta er í eina skiptið sem hann hefur fengið meira en milljón í laun þó hann sé á sínu fjórða ári í deildinni. Því er ekki gott að segja hvaðan hann fær þessa seðla. Kannski hefur hann bara fengið þessa peninga lánaða hjá frænda sínum sem vann í Víkingalóttóinu - nú eða rænt dýragarð. Hver veit þegar þessi maður er annars vegar.

Nostradamusfimmtudagur, 27. mars 2014

Grafarvogur versus Egilsstaðir


Spurt er: Hver sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í haust?

"Það verða klárlega Fjölnir og Höttur sem keppa um að fylgja Stólunum í úrvalsdeildina næsta vetur!"

Það er rétt hjá þér. Ekki nokkur maður. Það var enginn svo fjandi fullur.

Fjölnismenn tryggðu sér einvígið við Héraðsbúana í gærkvöldi þegar þeir lögðu Breiðablik 82-77 í æsispennandi umspils-oddaeik í Dalhúsum.

Áður höfðu Hattarmenn sent Þórsara frá Akureyri í sumarfrí. Hér eru á ferðinni liðin sem höfnuðu í 2.-5 sæti í 1. deildinni í vetur. Stólarnir fóru beint upp, en næstu fjögur liðin fóru í umspil.

Það eru ekkert allir með þetta á hreinu (ekki við amk) og því kannski ekki úr vegi að útskýra þetta fyrir leikmanninum.

Kópavogsliðið fór dálítið illa að ráði sínu í gærkvöldi, því það var yfir lengst af í síðari hálfleiknum. Þá tökum við samt ekkert af Fjölnismönnum, sem voru töffarar og settu niður risaskot í lokin, meðan fát kom á Blikana. Þetta leit hreint ekki vel út hjá Fjölni á síðustu mínútunum, en þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem við sjáum þetta lið sýna flottan karakter á ögurstundu í vetur.

Ólafur Torfason var að venju allt eins hrikalegur og hann á kyn til og skilaði 21/19. Eins verður að geta framlagi Róberts Sigurðssonar í krönsinu. Frýs í æðum blóð!

Það verður örugglega bullandi fjör í úrslitaeinvíginu, en þið þekkið okkur, auðvitað verðum við að bjóða upp á smá skammt af leiðindum. 

Hvaða erindi haldið þið að Höttur eigi upp í úrvalsdeild, þegar 840 sinnum stærri klúbbur eins og Valur fer upp annað hvert ár og en drullar alltaf strax á sig og vinnur varla leik?

Ætla mætti að Fjölnir ætti meira erindi í deild þeirra bestu en Höttur, enda miklu stærri klúbbur með 7.489 sinnum fleiri iðkendur og allt það. 

En eins og Valsmennirnir hafa reyndar sýnt okkur, skiptir stærð félaganna svo sem ekki öllu máli. Þeir virðast fullfærir um að drulla á sig hvort sem koma 20 manns eða 200 manns á leikina - og hvort sem sjoppan er tveir eða tvöhundruð fermetrar. 

Við áttum okkur ekki alveg á metnaði Valsmanna, eða öllu heldur skorti þar á. Kannski er metnaðurinn meiri við Lagarfljótið en á Hlíðarenda. Hann verður amk að vera það ef Höttur rambar nú upp. Annars verður þetta eitthvað neyðarlegt.

En nóg af svona leiðindum. Fjölnir á auðvitað að vera uppi í Úrvalsdeildinni. Það má vel vera að Grafarvogspiltarnir séu Arsenal íslenska körfuboltans, en þeir ná nú yfirleitt að hlaða í þokkalegasta lið inn á milli þess sem þeir dæla hverjum gæðaleikmanninum á eftir öðrum til útlanda og í önnur lið hér heima.

Gætum við samt fengið að sjá Fjölnir taka einn vetur með alla sína menn? Þetta eru ekki að verða neinir smá karlar sem hafa verið að koma frá Fjölni og eru ýmist í atvinnumennsku eða í lykilhlutverkum í öðrum liðum. Pant.

Hvað Hött varðar, væri auðvitað gaman fyrir félagið að fá aðeins að reyna fyrir sér í efstu deild, þó varla yrði til annars en að vera gólfmotta í nokkra mánuði. Þeir sem fylgjast eitthvað með í körfunni á annað borð, vita hvað er rosalegur styrkleikamunur á liðunum í efstu og næstefstu deild.

En, já. Nokkrar myndir.

Rusl vinnur drasl, á flautunni


Þú kemur ekki að tómum kofanum hjá Detroit Pistons þegar kemur að því að tapa körfuboltaleikjum. Í myndbrotinu hérna fyrir neðan sérðu liðið tapa skemmtilega fyrir Clevelans á flautunni. Það er Dion Waiters sem lokar þessu fyrir Cleveland-draslið, meðan Detroit-hræið horfir bjargarlaust á. Alveg rúmlega fimmtíu áhorfendur þarna í Detroit eins og venjulega. Æði bara.

Smá abstrakt í boði Stjána
Það er fátt eðlilegt við Ronald Jerome "Popeye" Jones, aðstoðarþjálfara Indiana Pacers. 

Hann frákastaði eins og kolkrabbi á sínum tíma og virðist hafa eitthvað vit á körfubolta þó hann líti ekki út fyrir að vera mikið greindari en notuð Nilfisk-ryksuga.

Ekki vann maðurinn í genalottóinu, svona útlitslega séð, en hann er sannarlega kómískur að sjá. Það var staðfest í nótt þegar "Stjáni" bauð upp á þessa tvo stórkostlegu svipi á þeim stutta tíma sem myndavélar ESPN sjónvarpsstöðvarinnar pönnuðu yfir grillið á honum. 

Hversu kjörið er þetta viðurnefni samt? Pop-eye? Stundum er einmitt engu líkara en að augun séu að poppa út úr hausnum á honum.

Fyrst bauð hann upp á þennan lúmska ráðabruggs-Stjána, sem er algjör Dawg!Og svo hjólar hann í Popp-augun aftur - svona eins og einhver hafi sagt honum að David Moyes hafi verið útnefndur knattspyrnustjóri mánaðarins!Ah, þessi fagmaður.

miðvikudagur, 26. mars 2014

Vestlæg átt, þykknar upp síðdegis


Hérna er tafla sem sýnir hvaða tíu lið í NBA deildinni hafa skarað fram úr í tölfræðinni í síðustu tíu leikjum. Þarna sérðu hvar liðin ranka í sókn, vörn og svo heilt yfir. Eitthvað þarna sem vekur sérstaklega áhuga þinn?

Það þarf ekki að koma á óvart að 90% liðanna á listanum séu úr Vesturdeildinni, sérstaklega þegar Miami og Indiana eru í skitukeppni þessa dagana. Sannarlega saga til næsta bæjar að Toronto af öllum liðum sé með þessi læti, eitthvað sem fáir hefðu séð fyrir.


Knicks heldur áfram að gefaVarst þú einn af þeim sem fór í dramakast þegar við sögðum að Knicks-liðið þitt væri drasl um daginn?

Vonandi ekki, því Nix sótti Lakers heim í nótt og lét drulla yfir sig. Hið sögufræga Lakers-lið hefur aldrei í sögunni verið lélegra og það er grínlaust alveg hægt að kalla Lakers D-deildarlið eins og NBA lið ef tekið er mið af mannskapnum sem Mike D´Antoni þjálfari hefur úr að moða.

Þeir Kobe Bryant, Pau Gasol og Steve Nash eru kannski ekki nógu sterkir leikmenn orðið til að gera Lakers að meistaraefni, en það munar sannarlega um að hafa þá alla í jakkafötum.

Það kom þó ekki að sök þegar New York kom í heimsókn í Staples höllina í nótt.

New York á að heita í baráttu um sæti í úrslitakeppninni! Einmitt.

Í stað þess að reyna að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni, ákvað New York auðvitað frekar að tapa leiknum og setja félagsmet með því að fá á sig FIMMTÍU OG EITT STIG í þriðja leikhlutanum!

Á móti leikmönnum eins og Wesley Johnson, Kendall Marshall, Jodie Meeks, Ryan Kelly, Xavier Henry, Nick Young, Robert Sacre, Kent Bazemore, MarShon Brooks og Chris fokkíng Kaman!

Þessi karakterslausi mannskapur hjá New York ætti að skammast sín, en gerir það sannarlega ekki. Liðið er löngu hætt að hlusta á orð af því sem Mike Woodson þjálfari er að pípa, svo hann er dauðari maður í gönguferð en nokkru sinni fyrr - og ekki hefur verið lognmollan í kring um hann að undanförnu.

Þetta er með ólíkindum. Phil Jackson hefur örugglega parkerað svarta Parker-pennanum sínum í kvöld og tjáð sig í svörtu bókina með rauðum, feitum túss. Það væri réttast að setja þessa aumingja hans alla með tölu á tombólu uppi í Torfufelli.

Við látum svo fylgja með nokkrar myndir úr leiknum í nótt, þar sem þið takið eftir því hvað D-drengirnir hjá Lakers eru alveg að hata þetta allt saman, meðan ráðaleysið skín úr andlitum Nix-manna.