fimmtudagur, 18. desember 2014

Fáir útvaldirHvaða þýðingu hefur nýjasti áfangi Kobe Bryant?


Þegar við vorum búin að byrja sautján sinnum upp á nýtt og henda um það bil 2000 orðum af einhverju rugli sem átti að heita pistill, rann það upp fyrir okkur að það skiptir nákvæmlega engu máli að Kobe Bryant sé búinn að skora fleiri stig en Michael Jordan í NBA deildinni.

Við héldum að þetta skipti máli og gerðum okkar besta til að skrifa þetta, en reyndir pennar finna það strax ef efniviðurinn er drasl. Þá er hann til dæmis enn meira drasl en það sem þó ratar inn á þessa síðu. Og það er sannarlega drasl.

Auðvitað skiptir það samt pínu máli að aðeins tveir menn hafi nú skorað fleiri stig í NBA deildinni en Kobe Bryant. 

Það ber fyrst og fremst vott um fjóra hluti: heppni með meiðsli (lengst af), járnvilja, samviskuleysi og óhemju hæfileika.

Við höfum ekki hitt neinn sem heldur að þessi áfangi hjá Bryant þýði að nú geti hann talist betri leikmaður en Jordan. 

Við hvetjum fólk til að fara nú ekki að hugsa þannig, það væru svokallaðar ranghugmyndir. Kobe verður aldrei betri en Jordan, en hann er samt einn allra besti körfuboltamaður sögunnar.

laugardagur, 13. desember 2014

Feðgaferð í Garðinn


Enn og aftur var okkur að berast bréf frá dyggum lesanda sem skellti sér á NBA-völlinn úti í Bandaríkjunum. Í þetta sinn voru það feðgarnir og norðanmennirnir Ágúst H. Guðmundsson og Júlíus Orri Ágústsson sem skelltu sér í Garðinn í Boston til að sjá sína menn í Celtics, en um var að ræða dýrari týpuna af ferð þar sem þeir fengu líka að hitta nokkrar goðsagnir. Talandi um gæðastund fyrir fjölskylduna - þetta gerist ekki mikið betra.

Það er lúmskt hvað Íslendingar eru duglegir að fara á leiki í NBA deildinni og við hvetjum ykkur sem fyrr til að deila með okkur ferðasögum og sérstaklega myndum frá ferðalögum ykkar ef svo býr undir. Við birtum hérna bréfið sem við fengum frá Ágústi H. Guðmundssyni og þökkum honum í leiðinni kærlega fyrir að deila því með okkur:

Vegna sameiginlegs áhugamáls okkar á leiknum fagra þá sendi ég ykkur til gamans myndir frá leik Boston Celtics vs Washington Wizards.  

Þarna má sjá stór nöfn í sögu NBA deildarinnar en báðir eiga treyjur sínar upphengdar í Boston (TD) Garden. Þetta eru þeir Cedric Maxwell og sjálfur Tommy Heinsohn með ungum Þórsara Júlíusi Orra Ágústssyni, leikmanni 8. flokks.
 
Cedric Maxwell (til hægri) þarf vart að kynna en hann varð tvöfaldur meistari með Celtics 1981 & 1984 og var NBA Finals MVP 1981 á tíma ekki ómerkari manna en þeirra Bird, McHale og Parish.  Maxwell fékk treyju sína #31 hengda upp hjá Celtics.
 
Svo er það goðsögnin Tommy Heinsohn (neðsta myndin) sem bæði var þjálfari og leikmaður Celtics, sigursælasta liðs NBA sögunnar.  

Tommy starfar í dag við sjónvarpsútsendingar og á 8 meistarahringa sem leikmaður, valinn nýliði ársins, 6x All Star, 2 hringa sem þjálfari og valinn þjálfari ársins 1973.
 
Það var því mikil upplifun fyrir ungan norðanmann, sem hefur mikla aðdáun á Celtics liðinu og sögu þess, að hitta þessar goðsagnir en Maxwell gekk með okkur feðgum um völlinn og húsakynni Celtics ásamt því að kynna okkur fyrir  stjórum (Danny Ainge), þjálfarateymi auk þess að fá eiginhandaráritanir  leikmanna Celtics. Heinsohn fékk treyju sína #15 hengda upp hjá Celtics.
 
Ég undirritaður átti þarna gott spjall við þá Tommy og Cedric en þeim þótti mikið til koma að við feðgar kæmum alla leið frá Íslandi til að horfa á leiki Celtics ár hvert en þrátt fyrir misgott gengi Celtics frá 2010 þegar við sáum þá vinna Lakers í 5. leik úrslitanna þá höfum við ekki séð þá tapa leik í ferðum okkar til Boston.  

Okkur feðgum voru færðar góðar gjafir frá Celtics og við tökum með okkur góðar minningar frá þessu „draumaliði okkar“.
 
Svo að lokum til þess að hnykkja á gæfu þeirri er við færum Celtics liðinu þá unnu þeir að sjálfsögðu báða leikina sem við sáum um helgina gegn Lakers & Wizards. J
 
Kveðja
Ágúst H. Guðmundsson
Þjálfari 8. & 9. Flokks Þórs Ak.

föstudagur, 12. desember 2014

Vörutalning - Vesturdeild


Nú eru flest liðin í NBA deildinni búin að spila tuttugu leiki og þá fer að verða hægt að rýna vitrænt í það hvað er að gerast í deildinni. Stutta útgáfan er að Vesturdeildin er svo sterk að annað eins hefur varla sést, en það þýðir vitanlega að Austurdeildin er mögulega að verða lélegri en áður, sem er afrek svo ekki sé meira sagt. En eins og allir sem lesið hafa NBA Ísland í fimm ár vita, er ekkert til á þessu vefsvæði sem heitir stutta útgáfan. Þannig að...

VESTURDEILD:

Auðvitað er alveg eðlilegt að sjö lið skuli vera með yfir 70% vinningshlutfall í Vesturdeildinni...

Þett´er svo mikið rugl. Þú tapar einum leik og hrapar bara fimm sæti eða eitthvað. Gríðarlega eðlilegt allt saman. Við munum ekki eftir að hafa séð svona áður, án þess að hafa rannsakað það vísindalega.

Já, það er Golden State sem hefur þann heiður að vera í efsta sæti deildarinnar eftir að hafa unnið nítján af tuttugu og einum. Þetta er besta byrjun þjálfara í sögu NBA deildarinnar hjá Steve Kerr og þetta Warriors-lið er einfaldlega hrikalegt.

Eins og okkur einum er lagið, náum við samt að búa til eitthvað neikvætt úr því að Golden State sé með 90% vinningshlutfall eftir rúma tuttugu leiki.

Þessi neikvæðni snýst um fjarveru Andrew Bogut. Hann er meiddur á hné eins og þið vitið. Ekkert svo alvarlegt, en nóg til að Kerr sparar hann og lætur hann hvíla meðan hann er að jafna sig í símeiddum skrokknum.

Vörutalning - Austurdeild


Nú eru flest liðin í NBA deildinni búin að spila tuttugu leiki og þá fer að verða hægt að rýna vitrænt í það hvað er að gerast í deildinni. Stutta útgáfan er að Vesturdeildin er svo sterk að annað eins hefur varla sést, en það þýðir vitanlega að Austurdeildin er mögulega að verða lélegri en áður, sem er afrek svo ekki sé meira sagt. En eins og allir sem lesið hafa NBA Ísland í fimm ár vita, er ekkert til á þessu vefsvæði sem heitir stutta útgáfan. Þannig að...

AUSTURDEILD

Auðvitað er Toronto í efsta sæti Austurdeildarinnar...

Toronto er í alvöru í efsta sæti Austurdeildarinnar þegar þetta er skrifað. Það er ekkert stungið af, en það er samt í efsta sæti. Toronto er veiðihári á undan Atlanta í efsta sætinu, manstu ekki, Atlanta sem byrjaði leiktíðina 1-3...

Ekki misskilja okkur. Toronto (16-6), Atlanta (15-6) og Washington (15-6) eru fín körfuboltalið, en þú veist að deildin þín er ekkert rosalega sterk ef þessi þrjú lið toppa hana.

Þessi lið eru öll með betra en 70% vinningshlutfall og það er fínt, en kommon. Það er ekkert heimsmet að vinna sjö af tíu leikjum í þessari Austurdeild, þar sem þú ert að spila við lið eins og New York, Detroit og Philadelphia kvöld eftir kvöld.

Það hefur hinsvegar margoft komið fram á þessu vefsvæði að það er ekki liðum eins og Toronto, Atlanta og Washington að kenna að hin liðin í deildinni þeirra (Austurdeildinni) séu rusl. Ókei, þá vitum við það.

mánudagur, 8. desember 2014

Þúsund orða mynd


Við stöldrum alltaf við í smá stund og drögum inn fortíðarþrá þegar við rekumst á þessa mynd, hvort sem við rekumst á hana á netinu fyrir tilviljun eða rennum augunum yfir hana í myndasafninu okkar. Þessi mynd öskrar ekkert á þig, en hún segir samt svo margt.

Ástæðan fyrir því að við fórum að grafa myndina upp er sú að við rákumst á aðra mynd sem tekin var við sama tilefni, bara frá öðru sjónarhorni. Því datt okkur í hug að kanna hvort fleiri myndir ættu eftir að poppa upp ef gerð yrði létt leit. Og það kom á daginn að svo var.

Fyrir þau ykkar sem botnið ekkert í þessu öllu saman, erum við að tala um þriggja stiga skotkeppnina um Stjörnuhelgina árið 1992. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að þarna var tvímælalaust á ferðinni einhver öflugasti mannskapur sem tekið hefur þátt í keppninni, eru þarna tvö andlit sem okkur þykir alltaf vænt um að sjá.

Litla krúttsprengju-rassgata-dúllu-mússí-mússið hann Steph Curry þegar hann var lítill og Drazen heitinn Petrovic, sem lést í umferðarslysi árið eftir.

(Risa)stórskyttan Stephen Curry á ekki langt að sækja skothæfileikana, eða öllu heldur náðargáfuna að handa körfuboltum ofan í gjörð með áföstu neti á allt að tíu metra færi.

Þroskaðir NBA-áhugamenn muna eftir pabba hans Dell Curry sem lék með Larry Johnson, Alonzo Mourning og Muggsy Bogues hjá Carlotte Hornets á tíunda áratugnum.

Eldri útgáfan af Curry skaut boltanum 3098 sinnum fyrir utan línu og fjögur af hverjum tíu þeirra rötuðu rétta leið. Það er vel ásættanlegt fyrir skyttu, en sonur hans er að bæta um betur bæði hvað varðar magn og gæði.

Og raunar hvern sem er, nema ef til vill son hans Stefán. Dell gamli spilaði á allt öðrum tímum í NBA. Hann var jú með græna ljósið, en ekki algjört drápsleyfi eins og sonurinn er með hjá Warriors nú þegar deildin er skotglaðari af færi en nokkru sinni fyrr.

Okkur er til efs að einhver hinna fullorðnu hafi hugsað með sér "fokk, þessi snáði á eftir að tortíma öllum þriggja stiga metum í bókinni eftir nokkur ár" þegar þeir sáu litla krúttið sitja á lærinu á pabba sínum þarna í febrúar 1992.

Þeir voru líka uppteknir við að skjóta, sérstaklega Craig Hodges, sem þarna vann keppnina þriðja árið í röð. Hann var svakaleg skytta, enda vann hann við það að taka þriggja stiga skot og ekkert annað. Og þá meinum við ekkert annað.


Aftari röð frá vinstri: Stockton, Petrovic, Richmond, Curry eldri, Ehlo. Fremri röð frá vinstri: Jim Les, Craig Hodges (sigurvegarinn) og Jeff Hornacek.

Þeir John Stockton og Craig Ehlo hafa kannski ekki fengið neinn til að skjálfa á beinunum, en restin af þátttakendunum eru allt goðsagnir á sjö metrunum. Jim Les, var sérfræðingur eins og Hodges og gerði ekkert annað en að taka þriggja stiga skot. Svo voru þeir þarna Jeff Hornacek og Mitch Richmond - og Drazen heitinn auðvitað. Sá gat skotið.

Það er ómögulegt að segja til um hver af þessum köppum er besta skyttan. Þessir menn voru að skjóta undir mismiklu álagi. Sumir unnu til verðlauna í skotkeppnum en tóku kannski fá eða engin skot í leikjum sem skiptu einhverju máli. Þannig vann Craig Hodges keppnina þrisvar, en er hann þá betri en skyttur eins og Steve Kerr, sem settu niður stóra þrista þegar mikið var undir?

Hvað um það. Hérna eru bestu skyttur allra tíma í NBA eftir okkar huglægu bókum. Í engri sérstakri röð: Craig Hodges, Dale Ellis, Drazen Petrovic, Peja Stojakovic, Jeff Hornacek, Ray Allen, Jason Kapono, Mark Price, Larry Bird, Kyle Korver, Steve Nash, Steph Curry og næstum því Anthony Morrow.

Og nei, við gleymdum ekki Reggie Miller. Hann reyndi fimm sinnum að sanna hvað hann væri mikill spaði í þriggja stiga keppninni en vann ekki einu sinni. Já, já, hann skoraði einn og einn stóran þrist, en hann er einn ofmetnasti körfuboltamaður í sögu NBA deildarinnar og menn eins og Drazen heitinn hefðu ekki einu sinni þurft fram úr rúminu til að skjóta hann í kaf. Og hafðu það!

miðvikudagur, 26. nóvember 2014

NBA deildin í Excel(.is)


Vinir okkar á excel.is eru alveg jafn hrifnir af körfubolta og við. Þeir hafa líka gaman að tölfræði, en á meðan skilningur okkar á tölfræði jafngildir þekkingu átta ára barna, eru fagmennirnir á excel.is vísindamenn þegar kemur að þessari dásamlegu hliðargrein körfuboltans.

Forsvarsmenn excel.is eru ekki aðeins fagmenn, heldur eru þeir til í að deila þekkingu sinni með okkur hinum, leikmönnunum. Að þessu sinni tóku þeir sig til og vippuðu öllum leikmönnum í NBA deildinni og allri þeirra tölfræði inn í excel, svo þú getir nú leikið þér að reikna út nánast hvað sem þér dettur í hug að biðja forritið um að finna. Apparatið uppfærir sig svo sjálft.

Við gætum haldið áfram að dásama þessa uppfinningu, en þá færum við mjög fljótlega að fabúlera um eitthvað sem við höfum minna en ekkert vit á. Það er miklu betra að leyfa sérfræðingunum sjálfum að útskýra hvernig þetta virkar.

laugardagur, 22. nóvember 2014

Klassíker: Spoelstra tæpur


Eitt bitastæðasta málið hjá NBA-pennum vestanhafs um þessar mundir er að sjálfssögðu stjörnum hlaðið Cleveland-liðið og brokkgengi þess í haust. Þetta er nákvæmlega í takt við heitasta fjölmiðlamálið í Bandaríkjunum fyrir fjórum árum, en þá var það hikstið á Miami sem var efst á baugi. Fjölmiðlar slefuðu þegar þeir slógu því upp að þetta LeBron-Wade-Bosh-dæmi þarna í Miami ætti aldrei eftir að ganga upp.

Það átti nú samt eftir að koma á daginn að Miami-dæmið gekk upp. Liðið fór í lokaúrslitin öll fjögur LeBron-árin og landaði titlum á tveimur þeirra. Ljómandi fínn árangur auðvitað. En eins og þið munið líklega flest, tók það Miami nokkurn tíma að komast í gang. Liðið spilaði 50% bolta fyrstu c.a. 20 leikina og það leiddist fólkinu ekki sem fann LeBron James allt til foráttu eftir Ákvörðunina örlagaríku.

Ástæðan fyrir því að Miami var svona lengi í gang á sínum tíma var meðal annars sú að liðið var mjög vandræðalegt í sóknarleiknum. 
Og það kom til vegna þess að Erik Spoelstra þjálfari lagði eingöngu áherslu á varnarleikinn allt frá æfingabúðum og fram í deildakeppni. 

Það skilaði sér strax og þó liðið hafi hikstað í sóknarleiknum, var það með nógu hæfileikaríka leikmenn til að vinna það upp og þeir fundu svo fljótlega taktinn þeim megin vallarsins. 

Ef þið spyrjið okkur, er það alltaf varnarleikurinn sem við hugsum um þegar við rifjum upp hvað það var sem gerði þetta Miami lið svona sterkt þegar það var á toppnum. Og þannig er það líka oftast með meistaralið.

Cleveland (5-6) hefur ekki byrjað vel í haust og það minnti okkur óneitanlega á það hvað fjölmiðlar - og við - voru að hugsa haustið 2010 þegar allt virtist vera í rugli hjá Miami. 

Þá var pressan auðvitað fljót að heimta höfuð Erik Spoelstra á bakka og sögusagnir uppi um að Pat Riley ætti eftir að reka hann og taka við sjálfur, rétt eins og hann gerði með Stan Van Gundy sex árum áður.

Þetta gekk blessunarlega ekki eftir og kannski eru einhver ykkar búin að gleyma því hvað Spo gerði vel í að sanna sig og halda svo utan um þetta lið í fjögur ár undir daglegri fjölmiðlapressu sem varla hafði sést áður. Sagan segir meira að segja að LeBron James hafi á þessum tíma farið á fund með Pat Riley og heimtað að Spoelstra yrði látinn fara, en Riley sagði honum að setja kork í´ann.

En svona sá grafíkdeildin á NBA Ísland fyrir sér ástandið hjá Miami fyrir fjórum árum:
fimmtudagur, 20. nóvember 2014

Hetjan og skúrkurinn Vince Carter


Snareðlurnar frá Toronto eiga ekki tvítugsafmæli fyrr en eftir eitt ár, en félagið er strax byrjað að fagna því með fortíðarblæ. Í nótt tóku forráðamenn Raptors loksins þá ákvörðun að heiðra fyrrum leikmann sinn Vince Carter með smá myndbandssýningu á risaskjánum.

Margir voru búnir að bíða ansi lengi eftir þessu augnabliki. Sumir til að fá tækifæri til að klappa honum lof í lófa, en aðrir til að baula á hann. Vince Carter lék með Toronto frá árinu 1998 til ársins 2004, þegar honum var skipt til New Jersey Nets fyrir dauða hænu, ryðgað stjörnuskrúfjárn og hálfan pakka af bláum Gajol - sem er ekki einu sinni góður eins og þið vitið.

Sumir segja að fyrsta höggið í þessu drama hafi komið frá félaginu, að það hafi verið klúbburinn sem klúðraði þessu öllu saman og flæmdi Vince í burtu. Við trúum því mætavel að félagið hafi klúðrað fullt af hlutum - það er staðreynd - en það er ekki hægt að kenna því um brotthvarf Vince Carter.

Carter nefnilega hætti bara!

miðvikudagur, 19. nóvember 2014

Áratugur frá uppþotinu í Detroit


Í dag eru liðin tíu ár frá Hallarbyltingunni í Detroit (Malice at the Palace), þegar slagsmál leikmanna Pistons og Pacers inni á vellinum bárust alla leið upp í áhorfendastæði með skelfilegum afleiðingum.

Indiana-mennirnir sem áttu mestan þátt í látunum (Ben Wallace hjá Detroit átti líka stóran þátt í að kveikja eldinn) voru Ron Artest, Stephen Jackson og Jermaine O´Neal og fengu þeir 86, 30 og 15 leikja bönn fyrir þátttöku sína í uppþotinu.

Þessi uppákoma er svartur blettur á nútímasögu NBA deildarinnar og í kjölfarið fylgdu ýmsar reglubreytingar sem ætlað var að hreinsa ímynd deildarinnar.

Alvaldur deildarinnar David Stern gekk hart fram í málinu og setti meira að segja reglur um klæðaburð leikmanna.

Það sorglegasta við þetta allt saman er samt að Indiana-liðið, sem var ógnarsterkt og efnilegt á þessum tíma, flaut þarna inn í hringiðu ruglanda og óreiðu sem tók mörg ár að laga.

Við segjum það sama í dag og við sögðum þá. Þó Mike Breen segi í lýsingunni sinni að honum lítist ekkert á geðveikisglampann í augunum á Ron Artest, er Ron-Ron langt frá því að gera geðveikasti maðurinn í prógramminu. Það er tvímælalaust Stephen Jackson sem er geðsjúklingur dagsins þarna eins og þið sjáið glöggt á upptökunni.

Við skulum vona að sé langt í næstu uppákomu af þessu tagi í NBA deildinni.Vaxtarkippur Brúnars og fyrirbærafræðin


Flestir sem á annað borð vita hver Brúnar er, þekkja söguna á bak við skyndilegan vaxtarkipp drengsins á unglings- og fullorðinsárunum.

Anthony Davis er með ljómandi góða boltameðferð af stórum manni að vera, en það er að hluta til vegna þess að hann gegndi stöðu bakvarðar upp í það sem nemur íslenska tíunda bekknum.

Hann var víst helst þekktur fyrir að hanga úti í horni og skjóta þristum, sem er ákaflega skondin tilhugsun í dag (í deeesch!).

Davis var víst ekki nema rétt rúmlega 180 sentimetrar á hæð í kring um 14-15 ára aldurinn, en nú þegar hann er kominn yfir tvítugt, er hann að nálgast 210 sentimetrana.

Sagt er að hann hafi mest sprottið yfir 20 sentimetra á 18 mánaða kafla.

Og hann á víst enn að vera að stækka, sem er reyndar ekkert spes, því ef hann fer ekki að hætta því, er hætt við að hann verði brothættur. Hann er alveg nógu gjarn á að meiðast nú þegar, þessi sambrýndi nördalegi og krúttlegi ofurleikmaður.

Hann er orðinn svo góður og hann er svo sérstakur leikmaður, að ef hann heldur svona áfram, förum við að kalla hann fyrirbæri. 

Og þið sem þekkið til á NBA Ísland vitið að það að vera kallaður fyrirbæri er líklega mesti heiður sem leikmanni hlotnast í okkar bókum.

Fyrirbærin eru sjaldgæf og sérstök og hver kynslóð leikmanna gefur almennt ekki af sér nema eitt fyrirbæri. Þannig var Wilt Chamberlain (f. 1936) fyrirbæri, Magic Johnson (f. 1959)var fyrirbæri, Shaquille O´Neal var fyrirbæri (f. 1972) og LeBron James (f. 1984) er fyrirbæri.

Leikmenn sem flokkast undir þetta hugtak eiga það sameiginlegt að búa yfir einstökum hæfileikum og oft eru það líkamlegir burðir þeirra sem gera það að verkum að þeir bera höfuð og herðar yfir samferðamenn sína.

Wilt og Shaq voru einfaldlega stærri, sterkari, sneggri og hæfileikaríkari en keppinautarnir - þeir voru hrein og klár genaundur. Menn eins og Magic og LeBron voru fyrirbæri á þann hátt að þeir höfðu fáa veikleika, gátu spilað nánast hvaða stöðu sem er á vellinum og gert það nær óaðfinnanlega. Fyrsta mál á dagskrá hjá þeim var og er alltaf að gera meðspilarana betri

Það er misjafnt hvenær menn ná tökum á fyrirbærafræðum sínum. Það var til dæmis vitað mál að Magic Johnson yrði/væri mjög sérstakur leikmaður löngu áður en hann byrjaði að raka sig. Þetta er ekki alveg jafn klippt og skorið hjá Davis, sem spilar líka allt aðra stöðu, en hann er líklega besta efni í fyrirbæri síðan LeBron james kom inn í deildina fyrir rúmum áratug. Og þá erum við ekki bara að tala um klæðaburðinn.


Bjöllubarnið Klitschko


Leikkonan léttfætta Hayden Panettiere og hnefaleikakappinn Wladimir Klitschko eiga von á barni mjög fljótlega. Skemmst er frá því segja að Klitschko er aðeins hærri en unnustan, sem er frekar stutt í annan endann.

Viðbjóðsvefurinn TMZ birti í gær bumbumyndir af henni Hayden litlu. Hún geislar af fegurð eins og allar konur sem ganga með börn, en við getum ekki annað en haft áhyggjur af því hvernig hún á að koma þessu stykki sem hún gengur með í heiminn.

Barnið verður á stærð við Volkswagen bjöllu!

Við óskum parinu að sjálfssögðu allrar lukku í barnastandinu, en okkur sýnist þetta barn eiga eftir að ógna henni Toyotu litlu Ming í stærð ef eitthvað er. Hvað ætli Toyota sé orðin hávaxin í dag?

Vörutalning eftir tíu leiki


Nú eru búnir um það bil tíu leikir í NBA deildinni og mörg ykkar hafa auðvitað dottið í eitthvað panikk af því þið skiljið ekki hvað er að gerast, hvort greina megi raunverulegar stefnubreytingar þegar einn áttundi er búinn af leiktíðinni. Andiði rólega, við skulum kíkja á þetta saman.

Það er gaman fyrir Snareðlurnar að vera í toppsæti Austurdeildarinnar (8-2) þó ekki væri nema í smá stund. Liðið heldur ágætis dampi frá í fyrra og er á topp tíu bæði í vörn og sókn, en sú staðreynd að liðið hefur spilað sjö af tíu leikjum sínum á heimavelli hjálpar þar aðeins til.

Það er öllu betur af sér vikið hjá Washington eð vera í öðru sætinu með 7-2 þrátt fyrir að vera án ungskotbakvarðar síns fyrstu vikurnar. Chicago er ljómandi 8-3 þó stjörnur spili þar sparlega og meiðist reglulega eins og lög gera ráð fyrir. 

Við erum búin að segja ykkur það svona fjögurhundruð sinnum að Chicago á að rúlla þessari Austurdeild upp ef það heldur þokkalegri heilsu og það er í rauninni bara gott að menn séu að detta út leik og leik, því þá neyðist stagkálfurinn sem þjálfar liðið kannski til að leyfa nýliðunum að spila eitthvað.

Atlanta og Miami slefa yfir 50% og eru bæði að valda okkur vonbrigðum, en Milwaukee og Orlando eru sem stendur inni í úrslitakeppni í 7. og 8. sæti, sem er algjör bilun, alveg sama hvernig á það er litið. Þó að þau spili í Austurdeildinni.

Brooklyn og Charlotte koma næst og þau fá beina falleinkunn. Indiana og Boston hafa gert vel að vinna þrjá körfuboltaleiki, enda reikna menn ekki með stórkostlegum hlutum þar í haust. 

Sigrarnir þrír sem komnir eru í hús hjá Detroit og New York eru hinsvegar engan veginn nóg, en stuðningsmenn þessara liða verða að hafa það hugfast að það er svínslega erfitt að vinna körfuboltaleiki með drullulélegum körfuboltamönnum - alveg sama hvað þeir eru stór nöfn.

Svo er eitt lið í viðbót í Austurdeildinni.

laugardagur, 15. nóvember 2014

Grettir #10