Wednesday, April 16, 2014

Meiðsli Bogut gætu eyðilagt áform Warriors


Þú ferð út á lífið og hittir föngulega dömu. Ferð með henni heim og leikar taka að æsast. Þið látið vel að hvort öðru og ákveðið að færa aksjónið inn í svefnherbergi. Svo þegar þú klæðir hana úr buxunum... kemur í ljós að hún er með bleyju. Þú nuddar augun og athugar hvort þig er að dreyma, en hjá þessu verður ekki komist. Hún er með bleyju, hvort sem þér líkar betur eða verr.

Svona líður stuðningsmönnum Golden State Warriors eftir að þeir fréttu að Andrew Bogut væri rifbeinsbrotinn og ætti því eftir að missa af úrslitakeppninni.

Eftir langan og strangan vetur var fjörið loksins að byrja. Loksins gátu strákarnir hans Mark Jackson farið að sýna okkur að ágætur árangur þeirra í úrslitakeppninni í fyrra* hafi ekki verið nein tilviljun.

En þá gerist þetta.

Svona er þetta alltaf hjá Golden State og svona hefur þetta raunar alltaf verið hjá Andrew Bogut, hvers heilsufar hefur verið kraftaverk síðustu mánuði miðað við vesenið á honum undanfarin ár.

Í fyrra var það David Lee sem meiddist í úrslitakeppninni og gat lítið beitt sér eftir það. Stephen Curry var líka meiddur þá og er eiginlega alltaf meiddur, því ökklarnir á honum eru ónýtir.

Curry var þó búinn að halda sæmilegri heilsu í vetur eins og Bogut, en nú er sú heilsa úr sögunni eins og hún verður fljótlega hjá keppendunum í þættinum Feitasti einstaklingurinn sem missir fáránlega mikla þyngd á skömmum tíma í sjónvarpi, en dettur svo strax aftur í það og verður feitur aftur af því að fólk sem er svona feitt á oftast við andlegan sjúkdóm að stríða sem kemur grænmeti og hlaupabrettum óskaplega lítið við - sem verið hefur á dagskrá í íslensku sjónvarpi undanfarið.

Þetta er í alla staði ömurlegt dæmi. Og þá erum við að tala um meiðslin, ekki þáttinn (Immit).

Það er kannski of mikil bölsýni að ætla að dæma Warriors úr leik í úrslitakeppninni bara af því það missir einn mann í meiðsli, en staðreyndin er bara sú að þessi maður er mikilvægasti leikmaður liðsins í varnarleiknum, með fullri virðingu fyrir frábærum varnarmanni eins og Andre Iguodala.

Það sem gerir þetta enn verra, er að maðurinn sem ætti með öllu að koma inn í stað Bogut og var meira að segja í byrjunarliði Warriors í helmingi leikja liðsins á síðustu leiktíð, Festus Ezeli, er líka meiddur. Hann er reyndar byrjaður að æfa eftir að hafa verið úr leik í allan vetur, en hann á ekki eftir að gera mikið í úrslitakeppninni ef hann kemur þá yfir höfuð við sögu.

Við erum því að tala um að Golden State sé að fara inn í úrslitakeppnina með Jermaine O´Neal sem eina miðherjann sem Mark Jackson treystir þokkalega. Það væru ágætar fréttir af við værum stödd á árinu 2004, en eins og þið vitið er 2014 núna og það boðar ekki gott þegar haft er í huga að O´Neal var búinn á því strax árið 2009, þegar hann gerði sig bókstaflega að fífli í úrslitakeppninni fyrir framan augun á okkur.

Það stefnir í að mótherji Golden State í úrslitakeppninni verði LA Clippers og ljóst að miðherjalaust Warriors-liðið getur ekki nýtt sér einn af veikleikum Clippers-liðsins sem er skortur á sentimetrum og kjöti í teignum.

Meiðsli Bogut þýða að það verður ekkert annað í boði hjá Warriors en að spila minnibolta. Allir vita að það fer liðinu langbest að tefla fram snaggaralegum leikmönnum undir tvo metra á hæð og hlaupa svo og skjóta eins og andskotinn væri á hælunum á þeim.

Bogut hefur reyndar alltaf verið með í myndinni í þessari fantasíu. David Lee hefur verið málaður út úr henni, sérstaklega eftir úrslitakeppnina í fyrra, en Bogut er alltaf inni.

En nú er hann ekkert inni.

Við gætum kannski trúað því upp á LA Clippers að drulla á sig ef Vinnie del Negro væri enn að þjálfa liðið, en hann er blessunarlega farinn og Doc Rivers er tekinn við af honum.

Undir stjórn Rivers hefur Clippers-liðið bætt sig talsvert þrátt fyrir meiðslavesen og því hefði eflaust verið lítil ástæða til að tippa á Warriors í einvígi liðanna, jafnvel þó Bogut hefði verið inni í myndinni.

Því miður fyrir Warriors, sjáum við því fyrir okkur að öfugt við í fyrra, þegar liðið var heppið með andstæðing og sló Denver út í fyrstu umferð, verði enginn Öskubuskuandi svífandi yfir vötnum í Oakland þetta árið.

Mark Jackson á eftir að predika mikið og við eigum alveg bókað eftir að fá heimsklassadrama í leikjum Golden State í úrslitakeppninni.

Það er hinsvegar spurning hvort Jackson gæti þurft að leita annað með predikanir sínar á næsta tímabili ef illa fer hjá Warriors. Það væri líklega ósanngjarnt í ljósi mótlætisins, en í NBA deildinni snýst þetta um að éta eða verða étinn, hvort sem menn eru andlegir á því eður ei.

* - Við mælum sérstaklega með viðtalinu við George Karl í samantektinni um fyrstu umferðina í úrslitakeppnina í fyrra sem er að finna þegar smellt er á tengilinn. Það er auðvitað eðlilegt.