Wednesday, April 23, 2014

Sögulegt ár hjá Popovich


Þér finnst kannski óþarfi að tíunda það eitthvað frekar að Gregg Popovich hafi verið kjörinn Þjálfari ársins í NBA deildinni. Það má vel vera, en við gátum ekki alveg látið þetta vera. Af því að það sem Popovich er búinn að vera að gera með San Antonio í vetur á sér enga hliðstæðu í sögu deildarinnar.
Pop var hér að hljóta nafnbótina Þjálfari ársins í þriðja sinn á ferlinum, en aðeins þeir Pat Riley og Don Nelson hafa afrekað að vinna þetta þrisvar sinnum. Það er auðvitað skondið að maður eins og Nelson skuli vera með þrjár styttur á hillunni sinni meðan menn eins og Phil Jackson eiga bara eina. Við skulum láta þá umræðu liggja í salti að sinni, en beina sjónum okkar að Popovich.

Það sem gerir þennan vetur alveg einstakan hjá Pop og Spurs er sú staðreynd að enginn leikmaður liðsins spilaði 30 mínútur að meðaltali í leik - hvorki gömlu refirnir, né ungu og efnilegu strákarnir. Þetta er ráðstöfun sem Popovich greip til til þess að minnka líkurnar á álagsmeiðslum og til að halda mannskapnum sínum sæmilega ferskum þegar kæmi fram í úrslitakeppnina. Þeir sem fylgjast eitthvað með NBA vita væntanlega að það er einsdæmi í sögunni að enginn leikmaður liðs spili meira en 30 mínútur í leik yfir veturinn.


San Antonio mátti þola einhvert súrasta tap síðari tíma í lokaúrslitaeinvíginu síðasta sumar og við munum vel eftir því að hafa í kjölfarið hugsað að það væri ekki séns að leikmennirnir næðu að rífa sig upp eftir þetta og komast aftur í úrslitin. Til þess voru lykilmenn liðsins allt of gamlir og tapið allt of hrikalegt. Þetta hlaut bara að hafa verið allra síðasti séns hjá Spurs. Það gat ekki annað verið!

Einmitt.

Við gleymdum víst að reikna með því að kjarni Spurs-liðsins samanstendur ekki bara af eintómum sigurvegurum og snillingum, heldur er nú komið í ljós að þeir eru allir vélmenni líka!

Nei, það lagði sko enginn árar í bát í San Antonio þrátt fyrir mótlætið í júní. Það eina sem liðið gerði var að sleikja sárin og verða deildameistari enn einu sinni.

Og ná besta árangri allra liða og heimavallarrétti í gegn um alla úrslitakeppnina þrátt fyrir að enginn spilaði meira en 30 mínútur í leik.

Og verða fyrsta 60+ sigra liðið sem er ekki með einn mann sem skorar 17+ stig að meðaltali í leik. Þetta er náttúrulega rugl.

Áðurnefnt rugl skrifast mikið til á Popovich. Dæmið sem hann er búinn að búa til þarna í San Antonio á sér enga hliðstæðu í sögu NBA og eins og við höfum sagt ykkur áður, er sigurganga Spurs í deildakeppninni síðan 1997 (þegar Duncan kom til sögunnar) sú langbesta í sögunni.

Þetta er svona; "himininn er blár, vatn er blautt og San Antonio vinnur 50+ leiki." Eða öllu heldur eitthvað í kring um 60 leiki.

Nú erum við alls ekkert að gefa okkur að San Antonio fari aftur í lokaúrslitin þó við séum að gaspra um ágæti liðsins núna.

Við erum aðallega að tala um deildakeppnina núna. Það er árangur Spurs í deildakeppninni sem færir Popovich titilinn Þjálfari ársins í þriðja sinn og annað sinn á þremur árum.

Hann Pop er sannarlega vel að þessu kominn í ár. Vissulega voru margir þjálfarar að standa sig mjög vel í vetur, jafnvel óvenju margir sem áttu skilið stig í kjörinu að þessu sinni. Þar ber Jeff Hornacek nokkuð af eftir Öskubuskuævintýrið sem hann bauð upp á með Suns í vetur. Það voru ekki aðeins sérfræðingarnir vestanhafs sem vanmátu Suns-liðið. Við gerðum það líka og göngumst óhikað við því. Við skitum á okkur þegar við spáðum því að Suns yrði að keppa við Kings og Jazz í kjallara Vesturdeildarinnar og næði líklega aldrei að vinna 20 leiki.

Fleiri þjálfarar sem stóðu sig ákaflega vel í vetur eru Tom Thibodeau hjá Bulls, Steve Clifford hjá Bobcats, Dwane Casey hjá Raptors, Terry Stotts hjá Portland og svo má alveg gefa þjálfurum bestu liðanna í deildinni prik - mönnum eins og Erik Spoelstra hjá Heat, Scott Brooks hjá Thunder og Doc Rivers hjá Clippers. Allir flottir.

Það hefur tíðkast undanfarin ár að skiptast á að veita þessi verðlaun þjálfaranum sem vinnur einna flesta leikina eða þjálfara sem nær óvæntum árangri með takmörkuðum mannskap. Skólabókardæmi um þetta voru Popovich og Hornacek í ár.

Það hefði verið hægt að velja Horny karlinn Þjálfara ársins fyrir ótrúlega frammistöðu hans með Suns, sem vann svo óvænt 48 leiki í vetur. Það er til fólk sem segist hafa spáð því að Phoenix yrði með fínt lið í vetur, en það er að ljúga. Haugaljúga.

Það hefði hinsvegar verið pínulítið endasleppt ef Hornacek hefði verið kjörinn Þjálfari ársins af því Phoenix komst ekki í úrslitakeppnina þrátt fyrir mjög hetjulega baráttu. Það var auðvitað bara af því liðið var í svona ógnarsterkri Vesturdeildinni. Phoenix hefði flogið inn í úrslitakeppnina í austrinu, sennilega með heimavallarrétt í fyrstu umferð.

Nei, í staðinn kusum við manninn hvers lið vann flesta leiki og með hvað mestum tilþrifum og stíl, Gregg Popovich. Sem betur fer kom ekki til þess, en við hefðum með ánægju veðjað milljón á það að San Antonio næði ekki 1. sætinu í vetur eftir það sem á undan gekk. Pop og félagar hlógu hinsvegar að okkur og plægðu sig í gegn um deildakeppnina án þess að svitna. Þetta er með ólíkindum.

"Ég er ekki frá því að Gregg Popovich gæti verið besti þjálfari í sögu NBA deildarinnar," lét góður maður hafa eftir sér fyrir nokkrum dögum.

Sá var sigurvegari sem leikmaður Boston Celtics, einn besti þjálfarinn í NBA í dag og gerði Dallas að meistara fyrir þremur árum. Þetta var Rick Carlisle.

Það hjálpar sannarlega til fyrir Popovich að vera með fagmenn eins og Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili í liðinu, en þessi frábæri árangur skrifast samt helst á aðferðafræðina. Pop karlinn er með ákveðið kerfi sem hann vinnur eftir og það skiptir engu máli hvort einhver er meiddur eða fjarverandi. Maður kemur í manns stað. Og þannig var það sannarlega hjá Spurs í vetur, þegar meiðslaalda gekk yfir Texas og lagðist á flesta lykilmenn liðsins.

Svona kerfi eru orðin sjaldgæf í NBA deildinni og það eru ekki mörg lið sem fara eftir fyrirfram ákveðinni aðferðafræði eins og Spurs. En eins og alltaf er þess að vænta að einhver félögin reyni að apa eftir San Antonio, en það er bókstaflega ekki hægt. Gregg Popovich orðaði það best sjálfur með tungu troðið í kinn: