Tuesday, July 29, 2014

Með eða án Manu


Félagaskipti LeBron James eru eðlilega fyrirferðarmesta frétt sumarsins í NBA, enda er það eðlilegt, það er stórfrétt þegar besti körfuboltamaður í heimi skiptir um félag að gamni sínu á hátindi ferilsins.

Þegar stórlax eins og James skiptir um félag, þarf stundum að núllstilla valdajafnvægisvogina í NBA upp á nýtt. Eins og James hefur sagt sjálfur, væri sennilega of mikið að ætlast til þess að Cleveland-liðið hans hafi burði til að keppa um meistaratitilinn á fyrsta árinu hans. Þetta þýðir með öðrum orðum að félagaskipti LeBron James eru ekki atriðið sem vegur þyngst í kapphlaupinu um meistaratitilinn 2015.

Það er þetta atriði sem ræður mestu í því samhengi.

Það er orðin gömul vísa og þreytt, en hún er sönn. Þú vinnur ekki meistaratitilinn nema hafa heppnina með þér í meiðslamálum, eins og San Antonio hafði á síðustu leiktíð. 

Þetta sterka lið hefur oft mætt í úrslitakeppnina með lykilmenn í meiðslum og þá er ekki að spyrja að leikslokum.

Ef úrslitakeppnin 2015 byrjaði í dag, væri San Antonio langsigurstranglegast, það segir sig sjálft. Og þess vegna ætti San Antonio líklega að eiga meiri möguleika en nokkuð annað lið á að vinna meistaratitilinn næsta sumar, EF allir lykilmenn halda heilsu.

Þess vegna er sú staðreynd að Spurs sé ekki tilbúið að leyfa Manu Ginobili að spila fyrir hönd Argentínu á HM þýðingarmesta frétt sumarsins.

Auðvitað vill Manu spila fyrir hönd þjóðar sinnar þó hann sé að nálgast fertugt og þrátt körfuknattleikssambandið í Argentínu sé víst frekar vafasamt fyrirtæki. 

En hann verður að taka skynsamlega ákvörðun í þessu sambandi núna og San Antonio er reyndar búið að gera það fyrir hann. Það liggur í augum uppi að Manu hefur ekki efni á því að spila á HM nú þegar hann er orðinn 37 ára gamall. Það er bara útilokað.

Landsliðsbrölt hefur áhrif á alla leikmenn sem taka þátt í því og meiðslahættan er líka mikil. Bættu því svo við hvað Ginobili er orðinn gamall og brothættur og þú ert kominn með sjálfsmorðsleiðangur fyrir hann og félagsliðið hans.

San Antonio á enga möguleika á að vinna meistaratitilinn 2015 (eða nokkurn annan) án Manu Ginobili, það er alveg klárt. Og bara til að rökstyðja mál okkar settumst við niður og reiknuðum það vísindalega út hvað  San Antonio ætti góða möguleika á að verja meistaratitilinn ef Ginobili hefði tekið þátt á HM á Spáni í haust.

Niðurstaðan: Þrjú komma sjö prósent! 

Það eru 3,7% líkur á að San Antonio vinni titilinn 2015 ef Manu Ginobili tekur þátt í HM með Argentínu. Svo ertu hissa á því að Spurs sé ekki tilbúið að sleppa honum á stórmót sumarið áður en það á möguleika á að vinna síðasta meistaratitilinn sinn með núverandi mannskap.

Látt´ekki svona!