Tuesday, September 16, 2014

Pau-wow-wow-yippie-yo-yippie-yay


HM-ævintýri Spánverja breyttist í martröð þegar þeir létu Frakka slá sig út úr keppninni á sínum eigin heimavelli. Enn ríkir körfuboltaleg þjóðarsorg á Spáni, því þennan titil ætluðu þeir sannarlega að vinna. Það hefur verið sannkölluð gullöld hjá spænskum síðastliðin ár, þar sem bæði fótbolta- og körfuboltalið þeirra hafa náð frábærum árangri á stórmótum. Ekki margar þjóðir sem leika það eftir.

Mitt í öllum vonbrigðunum er Pau Gasol, aðalmaður spænska liðsins sem hefur unnið til átta verðlauna á stórmótum á þeim rúma áratug sem hann hefur verið í landsliðinu. 

Við sáum reyndar ekki mikið af leikjum á HM að þessu sinni, en það sem við sáum til Gasol var í einu orði sagt frábært. Liðið hans drullaði kannski á sig, en Gasol þarf svo sem ekki að vera mjög ósáttur við sinn hlut í heildarmyndinni. Hann er nú kominn á alveg sérstakan stað í stórmótaannálum eins og þið sjáið í töflunni hérna fyrir neðan sem við fengum lánaða hjá hoopshype. 

Þar gefur að líta þá leikmenn sem oftast hafa verið kjörnir bestu menn mótsins á HM og EM (feitletruðu ártölin) og þá sem oftast hafa verið í úrvalsliðum mótanna.

Það setur reyndar strik í reikninginn að það er mjög misjafnt hvort bestu körfuboltamenn þjóðanna gefa kost á sér á þessi stórmót. Þannig tóku leikmenn eins og LeBron James, Kevin Durant, Tony Parker (besti maður EM í fyrra) og Manu Ginobili ekki þátt á HM að þessu sinni.