Wednesday, November 19, 2014

Vaxtarkippur Brúnars og fyrirbærafræðin


Flestir sem á annað borð vita hver Brúnar er, þekkja söguna á bak við skyndilegan vaxtarkipp drengsins á unglings- og fullorðinsárunum.

Anthony Davis er með ljómandi góða boltameðferð af stórum manni að vera, en það er að hluta til vegna þess að hann gegndi stöðu bakvarðar upp í það sem nemur íslenska tíunda bekknum.

Hann var víst helst þekktur fyrir að hanga úti í horni og skjóta þristum, sem er ákaflega skondin tilhugsun í dag (í deeesch!).

Davis var víst ekki nema rétt rúmlega 180 sentimetrar á hæð í kring um 14-15 ára aldurinn, en nú þegar hann er kominn yfir tvítugt, er hann að nálgast 210 sentimetrana.

Sagt er að hann hafi mest sprottið yfir 20 sentimetra á 18 mánaða kafla.

Og hann á víst enn að vera að stækka, sem er reyndar ekkert spes, því ef hann fer ekki að hætta því, er hætt við að hann verði brothættur. Hann er alveg nógu gjarn á að meiðast nú þegar, þessi sambrýndi nördalegi og krúttlegi ofurleikmaður.

Hann er orðinn svo góður og hann er svo sérstakur leikmaður, að ef hann heldur svona áfram, förum við að kalla hann fyrirbæri. 

Og þið sem þekkið til á NBA Ísland vitið að það að vera kallaður fyrirbæri er líklega mesti heiður sem leikmanni hlotnast í okkar bókum.

Fyrirbærin eru sjaldgæf og sérstök og hver kynslóð leikmanna gefur almennt ekki af sér nema eitt fyrirbæri. Þannig var Wilt Chamberlain (f. 1936) fyrirbæri, Magic Johnson (f. 1959)var fyrirbæri, Shaquille O´Neal var fyrirbæri (f. 1972) og LeBron James (f. 1984) er fyrirbæri.

Leikmenn sem flokkast undir þetta hugtak eiga það sameiginlegt að búa yfir einstökum hæfileikum og oft eru það líkamlegir burðir þeirra sem gera það að verkum að þeir bera höfuð og herðar yfir samferðamenn sína.

Wilt og Shaq voru einfaldlega stærri, sterkari, sneggri og hæfileikaríkari en keppinautarnir - þeir voru hrein og klár genaundur. Menn eins og Magic og LeBron voru fyrirbæri á þann hátt að þeir höfðu fáa veikleika, gátu spilað nánast hvaða stöðu sem er á vellinum og gert það nær óaðfinnanlega. Fyrsta mál á dagskrá hjá þeim var og er alltaf að gera meðspilarana betri

Það er misjafnt hvenær menn ná tökum á fyrirbærafræðum sínum. Það var til dæmis vitað mál að Magic Johnson yrði/væri mjög sérstakur leikmaður löngu áður en hann byrjaði að raka sig. Þetta er ekki alveg jafn klippt og skorið hjá Davis, sem spilar líka allt aðra stöðu, en hann er líklega besta efni í fyrirbæri síðan LeBron james kom inn í deildina fyrir rúmum áratug. Og þá erum við ekki bara að tala um klæðaburðinn.