Wednesday, November 19, 2014

Vörutalning eftir tíu leiki


Nú eru búnir um það bil tíu leikir í NBA deildinni og mörg ykkar hafa auðvitað dottið í eitthvað panikk af því þið skiljið ekki hvað er að gerast, hvort greina megi raunverulegar stefnubreytingar þegar einn áttundi er búinn af leiktíðinni. Andiði rólega, við skulum kíkja á þetta saman.

Það er gaman fyrir Snareðlurnar að vera í toppsæti Austurdeildarinnar (8-2) þó ekki væri nema í smá stund. Liðið heldur ágætis dampi frá í fyrra og er á topp tíu bæði í vörn og sókn, en sú staðreynd að liðið hefur spilað sjö af tíu leikjum sínum á heimavelli hjálpar þar aðeins til.

Það er öllu betur af sér vikið hjá Washington eð vera í öðru sætinu með 7-2 þrátt fyrir að vera án ungskotbakvarðar síns fyrstu vikurnar. Chicago er ljómandi 8-3 þó stjörnur spili þar sparlega og meiðist reglulega eins og lög gera ráð fyrir. 

Við erum búin að segja ykkur það svona fjögurhundruð sinnum að Chicago á að rúlla þessari Austurdeild upp ef það heldur þokkalegri heilsu og það er í rauninni bara gott að menn séu að detta út leik og leik, því þá neyðist stagkálfurinn sem þjálfar liðið kannski til að leyfa nýliðunum að spila eitthvað.

Atlanta og Miami slefa yfir 50% og eru bæði að valda okkur vonbrigðum, en Milwaukee og Orlando eru sem stendur inni í úrslitakeppni í 7. og 8. sæti, sem er algjör bilun, alveg sama hvernig á það er litið. Þó að þau spili í Austurdeildinni.

Brooklyn og Charlotte koma næst og þau fá beina falleinkunn. Indiana og Boston hafa gert vel að vinna þrjá körfuboltaleiki, enda reikna menn ekki með stórkostlegum hlutum þar í haust. 

Sigrarnir þrír sem komnir eru í hús hjá Detroit og New York eru hinsvegar engan veginn nóg, en stuðningsmenn þessara liða verða að hafa það hugfast að það er svínslega erfitt að vinna körfuboltaleiki með drullulélegum körfuboltamönnum - alveg sama hvað þeir eru stór nöfn.

Svo er eitt lið í viðbót í Austurdeildinni.
Vesturdeildin er búin að spilast nokkuð skemmtilega á fyrstu vikunum. 

Memphis hefur vakið athygli fyrir að vera 10-1 og sitja í efsta sæti deildarinnar, en án þess að við ætlum að míga mikið á mójóið hjá þeim, verður að segjast eins og er að liðið er búið að vinna tvo sigra sem talist gætu góðir sigrar. 

Memphis er búið að vinna Phoenix úti og Houston heima, en þar fyrir utan er það búið að glíma við mótherja eins og Minnesota, Indiana, Oklahoma og Detroit - og hefur líka afrekað að tapa fyrir Milwaukee. Við segjum þetta bara eins og það er - Memphis á að vera 11-0 og veit það, en það er svo sem fínt hjá þeim að vera að loka þessum ruslaleikjum.

Houston (9-2), Golden State (8-2), Portland (8-3) og Dallas (8-3) eru á því róli sem reiknað var með, þó Houston sé ef til vill að vinna aðeins fleiri leiki en reiknað var með. 

Stóri sjokkerinn situr svo í sjötta sæti Vesturdeildarinnar með sex sigra og fjögur töp, en það er Sacramento. Við erum bara búin með tíu leiki og allt það, en nokkrir af þessum sigrum hjá Kings hafa verið ljómandi góðir og batnandi Boogie er best að lifa.

San Antonio er besta 6-4 lið í sögu 6-4 liða, en Los Angeles Clippers (5-4) er að valda jafnmiklum vonbrigðum og Sacramento kemur á óvart. 

Það getur vel verið að þeir DéAndri og Blake hafi verið dálítið veikir um daginn, en það afsakar ekki hvað liðið er búið að vera drullulélegt í þrjár vikur. Doc þarf að fara að skipta um bleyju á þessum guttum sínum, þetta er ekki að gera sig. 

Við vitum að við erum að taka óþolinmóða og bráðlynda 2014/Twitter-stuðningsmanninn á þetta, en það getur vel verið að Clippers þurfi að fara að huga að því að reyna að skipta Jamal Crawford út fyrir traustari væng.

Svo kæmi það liðinu reyndar mjög vel ef Matt Barnes væri með púls. Þetta er bara ekkert að lúkka hjá þeim núna.

Það má vel vera að Clippers sé í þunglyndi yfir því að byrja bara 5-4, en Brúnar og félagar í Nawlins eru örugglega miklu kátari með það. Við erum búin að sjá algjöra Jekyll og Hyde útgáfu af Skörfunumá undanförnum dögum. 

Þetta lið er það brothætt að það er ekki í nokkrum vandræðum með að drulla á sig og tapa leikjum fyrirvaralaust þrátt fyrir yfirnáttúrulega hæfileika Brúnars, en við höfum líka séð það spila ljómandi vel, t.d. eins og þegar það valtaði yfir Cleveland í 24 mínútur á dögunum, en skeit svo í seinni. 

Það er eiginlega dálítið svekkjandi hvað New Orleans er lélegt lið, því það væri dásamlegt að fá að sjá meira af Brúnari, svo við tölum nú ekki í úrslitakeppninni. 

Það er hinsvegar dálítið hæpið að lið sem þarf að treysta á menn eins og Eric Gordon, Austin Rivers og Jimmer Fredette sé að fara að gera neitt í einni sterkustu (Vestur) deild sem sést hefur. 

Hvað sem því líður, mælum við að sjálfssögðu eindregið með því að ALLIR gefi sér tíma til að sjá Brúnar spila körfubolta sem fyrst. Hann er einfaldlega must-see körfuboltamaður heimsins í dag. Grínlaust. 

Gerir þú þér grein fyrir því að Brúnar er að skora 25 stig að meðaltali í leik (með 58% skotnýtingu, 77% í vítum), hirða 12 fráköst, verja FJÖGUR skot, gefa 2,2 stoðsendingar, stela 2,3 boltum og gera 3-4 æfingar í hverjum einasta leik sem enginn annar leikmaður í heiminum getur leikið eftir (sjáðu svipinn á Joel Freeland á myndinni hérna fyrir neðan, hann er búinn að fá nóg af lífinu)? 

Og hann er með litla 37 í framlag (PER) í leik!  

Og hann er fæddur nítjánhundruðníutíuogþrjú!

Aaaaaalveg eðlilegt bara!

En hvað varðar restina af Vesturdeildinni eru hlutirnir bara nokkurn veginn á pari nema hvað helst hjá Denver, sem við erum ekki viss um að gæti unnið UMFÁ úti á Álftanesi um þessar mundir. Vandræðagangurinn á því liði er með ólíkindum, en vonandi hefur það nælt sér í smá sjálfstraust með sigrinum óvænta í Cleveland á mánudagskvöldið.

Phoenix (6-5) og Utah (4-7) eru þar sem þau eiga að vera en Oklahoma er auðvitað langt fyrir neðan sína óskastöðu með aðeins þrjá sigra í ellefu leikjum, enda með 70% af liðinu, allt þjálfarateymið, almannatengsladeildina, fjórar konur úr mötuneytinu, tvo Border Collie hunda og þrjá hamstra á meiðslalista í dag.*

OKC er nú enn sem komið er ekki nema þremur leikjum frá áttunda sætinu, en það er ómögulegt að segja hvort liðið fer upp eða niður á næstunni.  Það á reyndar inni nokkra kósí leiki sem það á séns á á næstu dögum og við skulum öll vona að Oklahoma slefi nú inn í úrslitakeppnina í vor. Þetta er allt of skemmtilegt lið til að sitja heima.

Minnesota er búið að vinna tvo leiki og hefur sýnt skemmtilegar rispur eins og menn voru að vona, en eins og til að vera 100% samkvæmt sjálfu sér, missti það Ricky Rubio í slæm ökklameiðsli sem slá hann úr leik í nokkrar vikur. Það þýðir einfaldlega að þetta lið er ekki að fara að gera neitt á meðan. Því miður.

Svo er þarna Lakers.

--------------------------------------------------------------------------------------

* - Á meðan þessi setning var skrifuð meiddust tveir af bakvörðum Oklahoma og Kendrick Perkins bakkaði Volvo Lapplander yfir hausinn á Scott Brooks.