Sunday, January 4, 2015

Veðurspá fyrir Austurdeildina


Lesendur NBA Ísland geta alltaf treyst á að fá að vita með reglulegu millibili hvað klukkan slær í NBA. Eins og þið vitið flest, er narratífið fljótt að breytast í þessari dásamlegu deild. Stundum þarf ekki annað til en að einn eða tveir leikmenn verði fyrir því óláni að meiðast og þá getur allt farið upp í loft.

Við setjumst reglulega niður og skoðum stöðu mála í deildinni og reynum að veita ykkur yfirsýn á 30 liða deild þar sem fjöldi leikja fer fram á hverju kvöldi og fólk því fljótt að detta út úr taktinum. Við höfum kallað þetta vörutalningar. 

Nú ætlum við að henda í smá áramótapistil, en að þessu sinni er hann ekki aðeins ætlaður sem vörutalning og stöðutékk, heldur eru að verða til nokkrar áhugaverðar fléttur sem vert er að skoða nánar. Eitt það allra áhugaverðasta við NBA deildina - alveg eins og t.d. ensku úrvalsdeildina - er að taka eftir því og fylgjast með því þegar ný lið og nýir leikmenn ryðja sér til rúms í deildinni.

Fyrst beinum við sjónum okkar að Austurdeildinni og þróun mála þeim megin. Þar er að eiga sér stað merkileg þróun, þó megnið af liðunum þar sé í ruslflokki. Við botninn þar er New York, sem er búið að tapa 20 af 21 þegar hér er komið við sögu og er svo mikið drasl að stuðningsmenn þess eru farnir að þykjast vera Nets-aðdáendur.

Við erum reyndar búin að skrifa nóg um hamfarir Knicks og látum það því duga, þó það sé bíó út af fyrir sig að horfa á þetta lið tapa. 

Annað lið á botninum í austrinu er Detroit. Þið hafið heyrt okkur hrauna yfir þann ágæta klúbb með reglulegu millibili í vetur, en nú eru skondnir hlutir að gerast þar á bæ.

Þið munið að félagið borgaði Josh Smith fyrir að hætta að mæta í vinnuna um daginn. Þegar Smith fór til Houston, var Detroit búið að tapa fjórum leikjum í röð, sem var svo sem bara í ætt við annað hjá liðinu í vetur. 

Síðan Smith fór, hefur liðið hinsvegar snúið svona hressilega við blaðinu og er allt í einu búið að vinna fjóra leiki í röð - og það stórt. Detroit var 5-23 þegar Smith fór og var einn og hálfan mánuð að vinna fjóra leiki í upphafi leiktíðar (þó það væri 3-6 eftir fyrstu tvær vikurnar), en núna hefur það skyndilega unnið fjóra í röð á aðeins einni viku.

Þýðir þetta að Detroit sé allt í einu hætt að vera sorglegt körfuboltafélag? Nei, en það var kominn tími til að einhverjir af stuðningsmönnum Pistons hættu við að stökkva í sjóinn. Það er alveg hægt að búa til smá stemningu í kring um brotthvarf Josh Smith og ef stuðningsmönnunum leiðist, geta þeir líka horft á Houston-leiki sér til skemmtunar. 

Houston var 20-7 þegar Josh Smith kom til félagsins, en hefur tapað þremur af fimm eftir það. Við erum ekki endilega að segja að hér sé eitthvað annað en tilviljun á ferðinni, en þetta lítur ekkert rosalega vel út fyrir aumingja Smith.

Annað sem stuðningsmenn Pistons geta huggað sig við inn á milli þess sem Brandon Jennings tekur glórulaus sex metra skot úr jafnvægi, er spilamennska miðherjans unga og hrikalega Andre Drummond. 

Pilturinn er að bjóða upp á ansi frísk 13/13 og 2 varin skot og hefur blómstrað síðan hann losnaði við Smith (17/15).

Hann er búinn að hirða 20 fráköst eða meira í fjórum af síðustu sjö leikjum sínum, sem eru tölur sem hafa ekki sést í Detroit síðan Ben Wallace var upp á sitt besta þar fyrir áratug.

Fleira sem er að frétta í austrinu er að Milwaukee er ennþá 50% og það þrátt fyrir að þetta lið mæti aldrei, aldrei, aldrei fullmannað til leiks frekar en síðustu tíu árin. 

Ef þú getur eitthvað smá og spilar með Bucks, þá bara meiðistu. Það er bara þannig. Spurðu til dæmis Michael Redd, Andrew Bogut og nú síðast Jabari Parker. Hvað sem þessum meiðslum líður, en Jason Kidd að standa sig nokkuð vel með þetta svar NBA deildarinnar við Aston Villa.

Cleveland er alltaf í sviðsljósinu, en þar á bæ hefur heldur betur sigið á ógæfuhliðina undanfarið. Fyrst féll miðherjinn Anderson Varejao úr leik í allan vetur vegna meiðsla og síðast kom í ljós að LeBron James þyrfti að hvíla í um það bil tvær vikur til að létta á hnjaski í hné og baki.

Nú er eðlilegt að þið spyrjið okkur með starandi augnaráði og gapandi munni: "Hvað verður nú um Cleveland?" Þó það nú væri að ykkur langi að vita það. Cleveland átti jú að fara í úrslitin og það allt saman, var það ekki?

Jæja, við skulum spyrja að leikslokum með það. Hinsvegar...

Þessi rándýru meiðsli lykilmanna, ofan á þá staðreynd að Cleveland hefur ekkert verið að spila neitt ofboðslega vel í vetur, þýða að það fer að verða freistandi að draga ályktanir. 

Og þegar við förum að draga ályktanir, förum við um leið að gera okkur líkleg til að gera okkur að fíflum. Og það er alltaf gaman.

En svona grínlaust, þá þýðir þetta vesen á Cleveland væntanlega að kapphlaupið um heimavallarréttinn dýpra inn í úrslitakeppnina gæti verið að tapast og það verður aldrei til gagns. 

Þetta 4-5 leikja forskot sem toppliðin Atlanta og Toronto (og Chicago) eru að ná á Cleveland núna er kannski ekki óyfirstíganlegt, en það er til dæmis engin ástæða til að ætla að Toronto eigi eftir að gera annað en bæta í þegar DeMar DeRozan snýr til baka úr meiðslum.

Staðan er sem sagt þannig í austrinu núna að liðin sem voru best þar, Indiana og Miami, eru tæplega að fara að gera nokkuð og liðið sem margir sögðu að væri best á pappírunum, Cleveland, lítur ekki út fyrir að ætla að verða þetta skrímsli sem menn reiknuðu með.

Og hvað þýðir það? Jú, það gæti þýtt að við fáum að sjá eitthvað alveg nýtt í úrslitakeppni Austurdeildarinnar í vor. Það er svo sem ekkert nýtt að sjá Chicago ganga þokkalega í úrslitakeppni, en liðið hefur ekkert haft þangað að gera eftir að Derrick Rose hætti að spila körfubolta. 

Nú virðist hann ætla að hanga saman og þó Chicago sé kannski ekki alveg farið að spila eins vel og við bjuggumst við, er ljóst að æði margir munu tippa á að það verði fulltrúi austursins í úrslitum í júní. 

Þessi spá kemur líklega helst til vegna reynslunnar og breiddarinnar í herbúðum Bulls. 

Atlanta, Toronto og Washington langar rosalega að vera með í þessu, en það sem vinnur á móti þessum tveimur liðum er reynslu- og stjörnuleysi. Ýmist annað eða bæði. Slíkum hindrunum er óhemju erfitt að hrinda úr vegi. Þetta hefur sýnt sig. 

Það verður að segjast alveg eins og er að það er fyndið að Atlanta skuli vera í efsta sæti í Austurdeildinni. 

Þetta lið er vissulega að spila ljómandi vel, er með ágætis mannskap og efnilegan þjálfara, en við megum ekki gleyma því að þetta er Atlanta. Svona eins og við gleymdum því aldrei að Southampton væri Southampton um daginn.

Við verðum reyndar að gefa Atlanta kúdós á það hvað því hefur gengið vel á móti liðunum í Vesturdeildinni (7-2) en til að taka þetta kúdós strax til baka, bendum við á að liðið hefur spilað fáa leiki við vestrið og að innifalið í því eru leikir við Utah og Lakers. Þannig að.

Það er sem sagt ekkert heimsmet að vera með 75% vinningshlutfall ef þú ert að spila við lið eins og New York, Philadelphia og Detroit annan hvern dag. Það er bara þannig. 

Eins og við tyggjum alltaf ofan í ykkur. Einhver lið verða jú að vera efst í þessari Austurdeild og það er voða fínt hjá þeim, en við skulum alveg taka því með fyrirvara. Það er ekkert mál að þykjast vera Hjalti Úrsus ef þú ferð í sjómann við leikskólabörn.

Nei, það er Chicago sem á að vera líklegast í austrinu í dag. Eins og við sögðum, myndi það nú ekkert drepa þetta lið að vera með hærra vinningshlutfall. Tímabilið er hinsvegar ekki hálfnað og því enn nægur tími til að brugga hrikalegheit fyrir úrslitakeppnina ef menn fjósast til að halda sér heilum.

Og talandi um fléttur. Jimmy Butler, skotbakvörður Chicago Bulls, er tvímælalaust flétta 

Austurdeildarinnar fyrir utan Cleveland-sápuóperuna. Eins og einhver hafði á orði á Twitter um daginn:

Hvern langar ekki að sparka í legginn á stuðningsmanni Chicago af öfund yfir því að liðið skuli bara allt í einu - át of fokkíng nóver - vera komið með einn besta skotbakvörð deildarinnar í sínar raðir!

Þessi skotbakvörður er auðvitað ekkert nýkominn til liðsins. Hann hefur alltaf verið þarna. Hann heitir Jimmy Butler og er gjörsamlega að fara hamförum í vetur. 

Hann er öruggur í Stjörnuleikinn með sín 22 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar og 48% skotnýtingu þó hann hafi reyndar verið skítkaldur fyrir utan línu í vetur. 

Við vitum alveg að Chicago hefur orðið fyrir miklu mótlæti undanfarin ár, en það þýðir ekki að það eigi skilið að finna bara heimsklassa skotbakvörð í einhverjum Seríóspakka eða eitthvað shit! 

Þetta er pínu óþolandi, en verði ykkur að góðu, Bulls-menn. Ætli þið eigið þetta ekki sumpart skilið eftir allt Rose-dramað. Samt.

Það er of snemmt að byrja að blása í eigin básúnu þó við höfum sagt í allan vetur að Chicago væri líklegast í austrinu, en eins og staðan er í dag væri það ekkert svo galið. Hvort sem Bulls verður þar eða ekki, eru hinsvegar góðar líkur á að við fáum alveg nýja fulltrúa í Austurdeildareinvígið í vor. 

Það yrði sannarlega sérstakt að sjá Toronto komast í þriðju umferð og það er skondið að sjá Atlanta toppa Austurdeildina í fyrsta skipti í tuttugu ár. Svona getur verið gaman þegar spilin eru stokkuð upp á nýtt og kannski þýðir það að við fáum nýja og ferska hendi í vor. Hver veit.