Saturday, February 21, 2015

Félagaskiptaglugginn lokaðist með látum


Það er alltaf mikið fjör á bandarísku körfuboltamiðlunum þegar líður að lokun félagaskiptagluggans í NBA, en það reynist í langflestum tilfellum vera skrum og ekkifréttir. Menn bjuggust ekki við "stórum glugga" að þessu sinni af því mörg af félögunum sem á annað borð voru að hugsa um að gera breytingar, voru þegar búin að því. Þetta voru lið eins og Dallas (Rajon Rondo), Houston (Josh Smith), Oklahoma (Dion Waiters) og Memphis (Jeff Green).

Allt var með kyrrum kjörum þangað til 40 mínútur voru í lokun gluggans. Þá byrjuðu að leka út fréttir af félagaskiptum en bomban kom svo ekki fyrr en tíu mínútum fyrir lokun gluggans. Þá hreinlega varð allt vitlaust á markaðnum og menn hafa varla séð annað eins.

 Það eru svona gluggar sem gera það að verkum að menn eru svona spenntir fyrir þessu. Áður en yfir lauk voru hvorki meira né minna en 39 leikmenn búnir að skipta um heimilisfang og annað eins af nýliðavalréttum í framtíðinni.

Við fengum bæði að sjá fyrirsjáanleg viðskipti og óvænt. Nokkrir leikmenn voru búnir að vera að væla í fjölmiðlum og vildu fara frá félögum sínum. Þetta voru menn eins og Goran Dragic hjá Suns, Reggie Jackson hjá Oklahoma og Enes Kanter hjá Utah. Þeir fengu allir að flytja og eru handvissir um að nú verði alltaf jólin.

Það væri glórulaust að ætla að gera hverjum einustu viðskiptum skil í einum pistli og okkur dettur ekki í hug að reyna það einu sinni. Það er hinsvegar alveg nauðsynlegt að renna yfir stærstu dílana og skjóta út í loftið hvort um gáfuleg eða vitlaus viðskipti var að ræða. Við megum heldur ekki missa af tækifærinu til að gefa út yfirlýsingar sem gætu átt eftir að bíta okkur í (anus) í framtíðinni. Það er alltaf klassískt.

Núna erum við að renna inn á lokasprettinn í deildakeppninni og því notuðu mörg af liðunum sem ætla sér í úrslitakeppni tækifærið og freistuðu þess að styrkja sig með manúveríngum á leikmannamarkaðnum. Það er líka svo fjandi erfitt að standa í stað og gera ekki neitt ef a) liðið þitt er götótt og b) allir keppinautarnir eru búnir að bæta við sig leikmanni eða leikmönnum.

Það skilar venjulega litlu að gera breytingar bara til þess að gera breytingar. Til hvers að vera að fokka í liðinu þínu ef það er nokkuð heilsteypt og sterkt og mórallinn í lagi? Ekkert lið er hinsvegar svo fullkomið að það geti ekki bætt sig á einhverjum sviðum og því er alltaf freistandi þegar leikmenn fara í fýlu og vilja fara frá félögum sínum, nú eða ef félög ákveða skyndilega að halda brunaútsölur og losa sig við megnið af mannskap sínum, að sjá hvort er hægt að fara í bissness.

Við erum búin að glugga í slatta af greinum um félagaskiptagluggann og eins og skiljanlegt er, eru margar þeirra ósammála um hvernig liðin stóðu sig í öllum þessum hamagangi. Við erum líka mjög ósammála mörgum þeirra, en allt er þetta afstætt eins og annað. En hættum nú þessu þvaðri og kíkjum á það helsta sem gerðist.

Flestir eru sammála um að það hafi verið Miami sem stal senunni í félagaskiptaglugganum, enda landaði það sterkasta leikmanninum sem var á lausu, slóvenska leikstjórnandanum Goran Dragic frá Phoenix Suns. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Pat Riley forseti Miami stelur senunni á leikmannamarkaðnum og segja má að þetta hafi verið slamm-dönk hjá þeim gamla í þetta sinn.

Miami losaði sig við valrétti í staðinn fyrir Dragic, en öfugt við flest lið í deildinni, er Miami nokk sama um nýliðavalið og byggir fremur á að fá til sín menn með lausa samninga. 

Meiðsli hafa verið að gera Miami lífið leitt í allan vetur en árangur liðsins er samt sem áður allt of lélegur. Baslið á Heat hefur mikið til stafað af því að það er með eitt versta úrval deildarinnar af bakvörðum (ekki verra en Utah, en samt nokkuð vont).

Nú er hinsvegar búið að kippa góðum hluta af þessu bakvarðavandamáli í liðinn með því að landa leikstjórnandanum sem var í þriðja úrvalsliði deildarinnar á síðustu leiktíð, sem er enginn smá árangur. Goran Dragic hefur ekki verið alveg jafn beittur í vetur og hann var í fyrra, en hann hefur líka fengið að sjá miklu minna af boltanum en áður af því Phoenix var að deila mínútum milli þriggja leikstjórnenda. Það þýddi líka að Dragic var oft að lenda í því að þurfa að dekka framherja og þið getið ímyndað ykkur hvernig það gekk.

Nú fær Dragic algjörlega lyklana að Miami og fær að klappa boltanum eins mikið og hann vill. Gera má ráð fyrir að tölurnar hans muni í kjölfarið rjúka upp. 

Dragic er 28 ára gamall og kemur með nánast allan pakkann í leikstjórnandastöðuna hjá Miami. Hann er fínn varnarmaður, góður skotmaður og besti slúttari deildarinnar í sinni stöðu. 

Þá var ekki verra að hann fékk Zoran bróðir sinn með sér til Flórída. Dragic ætti að finna sig vel hjá Miami, þó hann verði líklega að bíða eitthvað eftir því að spila með sterkasta mannskapnum.

Með tilkomu Dragic er Miami komið með eitt sterkasta byrjunarlið deildarinnar á pappírunum og það ætti að geta fleytt því langt ef heilsan leyfir, þó varamannabekkurinn sé ansi þunnskipaður. Hugsið ykkur bara byrjunarlið með Dragic, Dwyane Wade, Luol Deng, Chris Bosh og Hassan Whiteside.

Það ætti að geta gert liðunum í 2-3 sæti Austurdeildarinnar lífið mjög leitt í úrslitakeppninni. Þó er hæpið að verði nokkuð úr því ef Dwyane Wade heldur áfram að meiðast og meiðast og sannarlega ef Chris Bosh er nú úr leik í allan vetur eins og menn óttast þegar þetta er skrifað.

Phoenix var ekki hætt að díla þó það væri búið að losa sig við Goran Dragic og þyrfti því ekki að hafa áhyggjur af því að gera við hann nýjan samning. Liðið losaði sig líka við hinn smávaxna Isaiah Thomas, sem endaði hjá Boston Celtics. Það er mögulegt að Phoenix sé nokkurn veginn að gefa 8. sætið upp á bátinn með þessum viðskiptum sínum, en það er enn betur sett en áður hvað varðar framtíðargóðgæti í formi valrétta.

Phoenix losaði sig við tvo leikstjórnendur í látunum, en það fékk einn tilbaka sem kemur til með að deila boltavaktinni með Eric Bledsoe í framtíðinni. Það er hinn geðþekki Brandon Knight frá Milwaukee Bucks, sem er búinn að spila ljómandi vel í vetur og ætti að halda því áfram í bakvarðavænu sýsteminu hjá Jeff Hornacek. Knight er með lausa samninga í sumar og það verður áhugavert að sjá hvað Phoenix gerir við hann.

Jason Kidd og félagar hjá Milwaukee skiptu líka um leikstjórnanda og fengu Michael Carter-Williams frá Philadelphia til að taka við stöðu Knight. 

Þarna fær MCW sitt fyrsta tækifæri til að spila með atvinnumannaliði í körfubolta og það verður gaman að sjá hvernig hann á eftir að standa sig hjá liði sem er að reyna að vinna körfuboltaleiki en ekki tapa þeim. 

Milwaukee bætti líka við sig þeim Miles Plumlee og Tyler Ennis frá Suns. Ekki menn sem breyta heiminum, en bitar í ungt púsl Bucks.

Minnesota púllaði mögulega glórulausustu viðskiptin í glugganum þegar það ákvað að láta Thaddeus Young fara til Nets í skiptum fyrir gamla yfirúlfinn Kevin Garnett. Það er krúttlegt að sjá Garnett snúa aftur heim og ef hann tónar niður geðveikina, er hann heppilegur maður til að kenna guttum eins og Andrew Wiggins hvernig á að vera atvinnumaður í körfubolta.

Aumingja Thaddeus Young. Þú gerir þér grein fyrir því að hann er að ganga í raðir Brooklyn Nets eftir að hafa verið hjá Philadelphia og Minnesota. Young er fínn körfuboltamaður, en Guði er einfaldlega illa við hann. Þetta er eins og ef þú færir til læknis út af krónískri ælupest og niðurgangi en hann segði þér bara að þú værir með gláku og lifrarbólgu. Gaurinn hefur örugglega verið stöðumælavörður eða Framsóknarmaður í fyrra lífi.

Brooklyn hefði auðvitað kosið að losa sig við meira af launum en raun bar vitni. Brooke Lopez var búinn að vera í slúðrinu lengi og flestir reiknuðu með að hann færi til Oklahoma, þar sem díll var kominn langt á leið. Forráðamenn Oklahoma hikuðu hinsvegar ekki við að dissa Nets þegar þeim barst betra tilboð.

Oklahoma þurfti nefnilega að reyna allt sem það gat til að fá eitthvað fyrir fýlustrumpinn Reggie Jackson, sem er staðráðinn í að verða sín eigin útgáfa af James Harden. Jackson endaði að lokum hjá Detroit og sagðist hafa grátið þegar ljóst var að draumur hans um að komast frá Oklahoma væri orðinn að veruleika. 

Það verður gaman að vita hvað Jackson á eftir að finnast um þessa viðleitni sína eftir 20 ár, þegar hann horfir til baka og sér hvað hann var heimskur að vilja sjálfviljugur fara frá Oklahoma og til Detroit af öllum stöðum. 

Það skiptir ekki máli hvort Jackson verður góður eða lélegur hjá Pistons, félagið á stórar ákvarðanir fram undan hvað varðar samningsmál Jackson og hver eigi að sjá um leikstjórnendastöðuna þar í framtíðinni.

Og talandi um Oklahoma. Flestir eru á því að OKC hafi gert góða hluti í félagaskiptaglugganum. Félagið leyfði Jackson og Kendrick Perkins að fara, en fékk í staðinn miðherjann Enes Kanter frá Jazz og framherjann Kyle Singler og leikstjórnandann D.J. Augustin frá Detroit. Við eigum eftir að sjá hvernig þessir strákar passa inn í framtíðarplön Oklahoma og það er erfitt að sjá hvort þetta kemur til með að styrkja liðið eða ekki.

Kendrick Perkins er nú loksins farinn frá Oklahoma, en það er þremur árum of seint að margra mati. Perkins var skipt til Utah þar sem hann verður keyptur út og þá líklega beint til Doc Rivers hjá Clippers ef að líkum lætur. 

Utah fékk valrétt í 1. og 2. umferð í skiptum fyrir Enes Kanter og Steve Novak, afar dapur díll fyrir mann sem tekinn var númer þrjú í nýliðavalinu. Svona er að vera félag á litlum markaði í NBA, mönnum með lausa samninga dettur ekki í hug að semja við þig og það eina serm þú getur gert er að safna valréttum sem verða aldrei að neinu.*

Úr því við erum að tala um litlu markaðina í NBA, er ekki úr vegi að skjóta því inn í að ójöfnuðurinn í deildinni á eftir að margfaldast eftir tvö ár þegar launaþakið hoppar upp í 90 milljónir í deildinni. 

Þá verður megnið af liðunum í deildinni með allt of mikið pláss undir launaþakinu og stóru markaðirnir munu hirða til sín alla leikmenn með lausa samninga, eins og þau hafa reyndar alltaf gert. Það eina sem við erum að benda á með þessu er að reglurnar sem ætlað var að gæta þess að félögin í NBA kepptu á jafnréttisgrundvelli hafa ekkert að segja.

Annað lið sem fór holu í höggi í glugganum er Portland. Það losaði sig við leikmenn sem það gat ekki notað og fékk í staðinn skotbakvörðinn og fagmanninn Arron Afflalo og framherjann Alonzo Gee frá Denver, sem er að byrja að stokka upp á nýtt. Það er óhemju vel gert og þetta ætti að verða til þess að styrkja varamannabekk Portland til muna, en hann hefur verið einn sá lélegasti í deildinni undanfarin ár. 

Denver gerði líka vel í að senda hægðaheilann JaVale McGee í sirkusinn í Philadelphia, þar sem hann verður eflaust frábær fyrirmynd fyrir Joel Embiid og hina krakkana hjá Sixers. Gæti til dæmis kennt þeim að drekka naglalakk og reykja starrahreiður.

Houston krækti í K.J. McDaniel frá Sixers og Pablo Prigioni frá New York. Fínt stöff á bekkinn hjá þeim er nú orðinn þokkalegur eftir að hafa verið skelfilegur í haust. 

Washington ákvað að skipta Andre "Ég man hvað siðaskiptin höfðu djúpstæð áhrif á mig" Miller til Sacramento þar sem hann hittir fyrir stærsta aðdáanda sinn í heiminum, George Karl. 

Wiz fær Ramon Sessions í staðinn, sem eru viðskipti sem fá hin liðin í deildinni til að skjálfa á beinunum. Eða, kannski ekki.

Þetta er það helsta sem gerðist á mínútunum áður en félagaskiptaglugginn skall aftur. 

Ekkert af liðunum sem á annað borð geta eitthvað í austrinu bætti neinu við sig. Miami á væntanlega eftir að bæta sig, en það hangir reyndar algjörlega á heilsu lykilmanna, sem hefur ekki verið góð.

Í Vesturdeildinni sáum við að toppliðið Golden State hélt að sér höndunum, enda væri ekki góð hugmynd að vera eitthvað að fokka í kemistríinu sem hefur myndast þar. Það eina sem GSW þarf að gera til vors er að pakka Andrew Bogut inn í bómull og bóluplast.

Memphis var búið að taka sinn dans á félagaskiptamarkaðnum en Portland, sem einhverra hluta vegna er enn í þriðja sætinu, ætti að hafa bætt sig umtalsvert með tilkomu Arron Afflalo. Houston bætti örlítið við sig eins og Dallas, sem landaði Amare Stoudemire á dögunum.

Eitt lið sem hefði eflaust viljað geta gert eitthvað sniðugt, en hafði ekkert til þess, var LA Clippers. Það eru stór skörð í liði Clippers og ekki minnka þau þessar vikur sem Blake Griffin verður frá vegna meiðsla. Við verðum samt að gefa Clippers kúdós á sigurinn á San Antonio í gærkvöldi.

Nú þegar glugginn er lokaður, er ekki annað að sjá en að skrímslin í vestri hafi stækkað ef eitthvað er. Það magnaða við þetta stera-vestur er að öll átta liðin sem eru inni í myndinni í úrslitakeppnina í dag, gera sér vonir um að vinna meistaratitilinn í sumar. Það þýðir kannski að sum þeirra séu aðeins of bjartsýn, en það er samt hægt að færa rök fyrir því að nánast öll átta liðin gætu unnið titilinn ef þau dyttu í stuð í vor. Úrslitakeppnin í vestrinu verður bönnuð innan 18 ára.



-----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Úr því við erum að tala um litlu markaðina í NBA, er ekki úr vegi að skjóta því inn í að ójöfnuðurinn í deildinni á eftir að margfaldast eftir tvö ár þegar launaþakið hoppar upp í 90 milljónir dollara. Þá verður megnið af liðunum í deildinni með allt of mikið pláss undir launaþakinu og stóru markaðirnir munu hirða til sín alla leikmenn með lausa samninga, eins og þau hafa reyndar alltaf gert. Það eina sem við erum að benda á með þessu er að reglurnar sem ætlað var að gæta þess að félögin í NBA kepptu á jafnréttisgrundvelli hafa ekkert að segja.