Thursday, April 23, 2015

Kawhi Leonard er ekki varnarmaður ársins


Við óskum Kawhi Leonard til hamingju með að hafa verið kjörinn Varnarmaður ársins í NBA deildinni í dag. Það hefur ekki borið rosalega mikið á Kawhi í vetur, nema kannski aðeins síðustu vikurnar. Kannski var það þess vegna sem hann náði kjöri - hann var kjósendum í fersku minni þegar gengið var í kjörklefana.

Ekki misskilja, við erum óhemju hrifin af Leonard og öllu hans framlagi hjá San Antonio. Hann er hinsvegar ekki varnarmaður ársins í okkar bókum. Það böggar okkur dálítið að hann skuli fá þessa nafnbót þrátt fyrir að hafa misst úr 20 leiki í vetur.

Draymond Green hjá Golden State er ekki jafn öflugur varnarmaður og Leonard - og kannski er enginn í heiminum betri en hann úti á velli - en Green missti aðeins úr þrjá leiki með Warriors í vetur og dekkaði allt frá bakvörðum til miðherja.

Andrew Bogut er akkerið í vörn Golden State (sem nota bene var besta vörnin í NBA deildinni í vetur), en Green er langfjölhæfasti varnarmaður liðsins og er einmitt að sýna það þessa dagana, þar sem hann er að standa sig eins vel eins og mannlegur máttur leyfir í að dekka Anthony Davis hjá New Orleans.

Nei, það er Draymond sem er varnarmaður ársins hjá NBA Ísland, með fullri virðingu fyrir Kawhi Leonard. Kawhi var auðvitað góður í vetur og það var DeAndre Jordan líka, þó hann sé ekki eins góður og þjálfarinn hans vill meina.

Það var gaman að sjá Rudy Gobert koma inn á listann og hann hefði líklega endaði í verðlaunasæti ef hann hefði fengið byrjunarliðssæti sitt fyrr en á miðri leiktíð. Hann verður á topp fimm í þessu kjöri næstu tíu árin ef heilsa leyfir.

Við sjáum að Tim Duncan er líka að fá smá ást í kjörinu, en samt ekki nógu mikla. Það gleymist oft hvað helvítis karlinn er magnaður varnarmaður. Það er kaldhæðnislegt að San Antonio hafi átt þrjá varnarmenn ársins á síðustu c.a. 30 árum en enginn þeirra heiti Tim Duncan.