Friday, April 17, 2015

Vörutalning að vori: Austurdeild


Nú er deildakeppninni í NBA lokið og þá verðum við að gera vörutalningu - rita niður hugleiðingu um niðurstöðuna og kíkja kannski aðeins fram á veginn í úrslitakeppninni. Að venju byrjum við í Austurdeildinni af því hún er ekki nema léleg upphitun fyrir deildina sem skiptir máli í vestri.

Eins og við sögðum í haust, verður eitthvað lið að vinna þessa Austurdeild og einhver af þessum liðum verða jú að vinna leiki - en það er líka nær eingöngu af því þau eru að spila við hvort annað. Ef þú stillir rusli upp á móti rusli - er jú ljóst að ruslið tapar.

Við skulum ekki taka það af Atlanta, það vann 60 leiki og það geta ekki öll lið. 

Við gefum Haukunum þetta bein af því þeir unnu fullt af liðum úr Vcsturdeildinni og spiluðu ljómandi vel lengst af í vetur. Við erum samt engu nær því að hafa trú á þessu liði til að gera stóra hluti í úrslitakeppninni og tökum bara á því þegar að því kemur. 

Andstæðingar Atlanta í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eru Brooklyn Nets - sorglegasta lið sem við höfum séð komast í úrslitakeppni síðan við byrjuðum að fylgjast með NBA deildinni fyrir nokkrum áratugum. 

Paul Pierce lýsti þessu best í viðtali á dögunum, þar sem hann hraunaði yfir leikmenn liðsins með beinum og óbeinum hætti.  Þetta eru ræflar og gungur á allt of háum launum og vonandi fá þeir að fara í sumarfrí eftir fjóra leiki, því þeir hafa engan áhuga á því að gera eitthvað í úrslitakeppni og hefðu aldrei komist þangað nema af því Austurdeildin er svo mikið drasl að liðið sem var á yfirlýstan hátt að REYNA að tapa í allan vetur, endaði ekki einu sinni í neðsta sæti (vel gert, New York, sem náði að vera sorglegra en Nets og Sixers til samans).

Cleveland endaði í öðru sæti Austurdeildarinnar og vann 53 leiki, sem kannski er þokkalegt á miðað við hvað þetta lið var með brækurnar á hælunum fram að áramótum. Andstæðingar LeBron og félaga er hið unga, áhugasama og vitlausa lið Boston Celtics. 

Þetta Boston-lið á auðvitað ekkert erindi í úrslitakeppnina og ef þú spyrð stjórnina, hefði hún eflaust miklu frekar viljað enda neðar og eiga möguleika á að fá að velja fyrr í nýliðavalinu í sumar. 

Vandamálið við þetta "plan" var hinsvegar að þjálfarinn var allt of góður (alveg eins og í Utah) og því varð árangurinn allt of góður.

En svona að öllu gríni slepptu, er þetta gaman fyrir krakkana í Boston að fá aðeins að finnan lyktina af úrslitakeppninni, þó ekki væri nema til að enda sem fjölskylda af tómatvörum utan í veggjunum í húsi Cleveland. Boston er sannarlega komið með "keeper" í þjálfarastólinn og það er góð byrjun á öllum plönum sem horfa til framtíðar.

Cleveland er einhverra hluta vegna liðið sem Vegas tippar á að vinni titilinn og það þýðir sjálfsagt ekkert að fokka við það. Þeir verða erfiðir þessir kallar, þó körfuboltinn sem þeir spila sé dálítið spes. Hvað sem öðru líður verður áhugavert að sjá hvert föruneyti Kóngsins kemst í fyrstu atrennu. 

Við höfum ekki leyft okkur að hugsa um það, en við þurfum öll að taka sögubækurnar fram og skrifa nýja kafla í þær ef LeBron James tekst ætlunarverkið í sumar. Það... yrði rosalegt.

Toronto og Washingon fá þann vafasama heiður að berjast um hvort þeirra tapar fyrir Atlanta í annari umferð úrslitakeppninnar - og ef þú hefur í huga að við höfum ekkert rosalega mikla trú á Atlanta - veistu að hér eru engin svimandi gæði á ferðinni. 

Það er voðalega gaman fyrir Toronto eða Washington að komast í aðra umferð, en hvorugt þessara liða á skilið að fara þangað. 

Bæði lið eru ofmetin og hefðu líklega ekki komist í úrslitakeppnina ef þau spiluðu í Vesturdeildinni. Það er alveg sama hvernig þú horfir á þetta einvígi - það er öllum skítsama hvernig það fer.

Loks er það Chicago sem mætir Milwaukee. Það er ekkert útilokað að við fáum tvo eða þrjá leiki í þessari seríu sem fara 56-48. Þetta verður svartidauði út í gegn en Chicago vinnur þetta örugglega, þó við höfum enga trú á Bulls. Við erum búin að gefa það lið upp á bátinn fyrir löngu, það er ekki að fara að gera neitt, stjarna þess er búin að vera og þjálfarinn er að fara frá félaginu í sumar. Vei.

Þarna hafið þið það. Fyrsta umferðin í austrinu verður sem sagt hömlulaus skemmtun, svona dálítið eins og kvikmyndin Eldfjall.