Wednesday, May 27, 2015

Fimmta úrslitaeinvígið í röð hjá LeBron James


Ætli sé ekki best að skipta aðeins um gír. Reyna að laða fram smá jákvæðni eftir að vera búin að eyða klukkutíma í að moka skít yfir hræið af Atlanta Hawks. Ekki hélduð þið að við ætluðum að klappa fyrir Atlanta og veita því verðlaun fyrir að drulla svona á sig.

Nei, Cleveland er komið í lokaúrslitin í annað skipti í sögu félagsins eftir að það hraunaði yfir Atlanta 118-88 í nótt og því var 4-0 sóp staðreynd. Vel gert hjá Cleveland, fáránlegt hjá Atlanta.

Við þurfum ekki að fara mjög mörgum orðum um Cleveland á þessu stigi málsins - gerum það kannski áður en lokaúrslitin hefjast 4. júní (sem sagt, eftir ellefu mánuði). Þó eru nokkrir punktar sem verða að koma fram.

Þegar við segjum að Cleveland sé komið í úrslit, erum við meira að segja að LeBron James sé kominn í úrslit, því hann er meira og minna búinn að bera þetta lið á herðum sér í gegn um úrslitakeppnina.

Okkur er alveg sama hvað fólk segir, meiðslastaðan hjá Cleveland gerir það að verkum að það er margt líkt með 2015 liðinu þeirra og 2007 liðinu sem San Antonio slátraði í lokaúrslitunum.

Þetta lið fer eins langt og LeBron James fer með það. Það er klisja, en það er satt.

Cleveland á eftir að fá þungt högg þegar það mætir loksins góðu liði í lokaúrslitunum og ef við gefum okkur að það mæti Golden State þar, ætti það einvígi ekki að verða langt.

Golden State er svo miklu, miklu betra lið en Cleveland - ekki síst ef Irving verður á annari löppinni. Við gefum Cavs þá séns ef LeBron James verður með 40/15/15 meðaltal í seríunni.

En kíkjum á það seinna - skoðum heldur hvað LeBron James er að gera. Hann er að tússa í sögubækur drengurinn.

Við erum búin að sjá James þokast upp alls konar lista í þessari úrslitakeppni og það er eins og hann sé að taka fram úr mönnum eins og Larry Bird annan hvern dag.

Hann er ekki nema þrítugur pilturinn en hann er búinn að vera svo sigursæll undanfarin ár að hann er að hóta að slá öll möguleg tölfræðimet í úrslitakeppninni.

Annað sem honum finnst eflaust merkilegra en þessi tölfræði er að hann er nú að leika til úrslita um meistaratitilinn fimmta árið í röð, sem er með ólíkindum.

Síðast þegar leikið var til úrslita um NBA meistaratitilinn og LeBron James var ekki í öðru hvoru liðinu, voru Inception, The Social Network og Black Swan í bíó. Pældu aðeins í því.

Þú veist að þú ert á mjög sérstökum slóðum ef þú ert farinn að ná árangri sem enginn hefur náð nema Bob Cousy og Bill Russell í gullaldarliði Boston Celtics. Þeir tveir eru nefnilega einu stjörnuleikmennirnir sem hafa spilað til úrslita fimm ár í röð.

Þeir Russell og Cousy voru ekki einu mennirnir hjá Celtics sem náðu þessum árangri á sínum tíma, þeir voru auðvitað með sína aukaleikara líka.

Reyndar er LeBron James líka með einn fastan aukaleikara, því James Jones hefur fylgt honum öll þessi fimm ár sem hann hefur farið í úrslitin, fyrst hjá Miami og nú hjá Cleveland.

Þetta er lygilegur árangur hjá James og það gefur augaleið að menn gera ekki svona nema vera ákaflega heppnir með meiðsli og það hefur James gert. En það er annað sem LeBron karlinn hefur verið heppinn með og það er sú staðreynd að hann er að spila í alveg hrottalega lélegri Austurdeild.

Þegar James náði með einhverju kraftaverki að vinna austrið árið 2007 voru talsvert sterkari lið þar en eru í dag. Hann þurfti t.d. að slá fyrrum meistara Detroit Pistons út í úrslitum Austurdeildar áður en hann lenti í klónum á San Antonio í lokaúrslitunum.

Liðin sem eru búin að vera við toppinn í Austurdeildinni undanfarin ár eru hinsvegar flest algjört drasl.

Kjarninn í meistaraliði Boston frá 2008 var kominn á aldur þegar James fór aftur í úrslitin árið 2011 með Miami og eina liðið sem hefur staðið eitthvað í honum síðan þá er Indiana.

Það var vissulega fínt varnarlið en vonlaust sóknarlið og því meingallað þó það væri líklega sterkasti keppinautur James í austrinu á þessum fimm árum sem hann hefur farið í lokaúrslitin.

Þetta hljómar örugglega eins og við séum að dissa James, en það var reyndar ekki planið og það er óþarfi að taka þessu sem slíku af því þó liðin í austrinu hafi verið drasl undanfarin ár, hefur liðið sem kom úr vestrinu alltaf verið mjög sterkt og því hefur James sannarlega þurft að hafa fyrir titlunum sínum tveimur.

Eins verður það ef hann ætlar að vinna þriðja titilinn sinn í næsta mánuði, þegar hann mætir í lokaúrslitin í sjötta skipti síðan hann kom inn í deildina haustið 2003.

Það er langt síðan við höfum gert það að gamni okkar að bera LeBron James saman við bestu körfuboltamenn sögunnar og pæla í því hvað hann á skilið að fara hátt á listanum. Það eina sem James hefur gert síðan við gerðum þetta síðast er að vinna leiki og titla, setja met og halda áfram að vera besti körfuboltamaður í heimi.

Ætli sé því ekki best að vara afturhaldsseggina við. Það gæti farið að styttast í að við förum að setja LeBron James upp fyrir einhverjar af gömlu hetjunum ykkar á lista þeirra bestu. Hann er bara svona góður.