Friday, May 22, 2015

Golden State er í góðum málum (+ myndir)


Fimm stig. Það er allur munurinn á Golden State og Houston eftir tvo fyrstu leikina í Oakland, en það er Golden State sem er komið í 2-0 og afar þægilega stöðu í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar eftir 99-98 sigur í leik tvö í nótt.

Í stóra samhenginu er þessi rimma að þróast eins og búast mátti við - Warriors nær að verja heimavöllinn og fer nú til Texas með tvo góða sigra í farteskinu. Þróun mála í þrengri skilningi er þó ekki alveg eins og við höfðum reiknað með.

Við bjuggumst sannarlega við að það yrðu nokkuð hressilegar sveiflur í þessu einvígi og það helst í formi stórskotaárása frá heimamönnum, en það sem er svo magnað við þetta er að Houston hefur náð að svara þeim í hvert einasta skipti. Það sem kemur mest á óvart er því seiglan í liði Rockets. Við reiknuðum einhvern veginn með að það væri tómt á þeim tönkum eftir Clippers-einvígið, en annað hefur komið á daginn.

En þó Houston hafi náð að elta Golden State uppi í hvert sinn sem Warriors hóta því að stinga af, hefur því ekki tekist að nýta færin sem það hefur fengið til að komast yfir á réttum tíma og stela leik í Kaliforníu.

Það var vitað mál að Houston ætti ekki eftir að vinna mjög marga leiki í Oracle-höllinni í þessu einvígi í ljósi þess að liðið er bara búið að tapa þrisvar sinnum þar í allan vetur.

Það segir sig sjálft að Houston verður að finna leið til að vinna útileik í þessu áður en það verður of seint. Fyrst bíða tveir heimaleikir niðri í Texas, þar sem heimamönnum ætti að líða betur en í hávaðanum í Oakland.

Tölfræðin er auðvitað ekki á bandi Houston eftir þessi töp og segir að séu 93% líkur á að Golden State klári rimmuna. Houston hefur 15 sinnum í sögunni lent undir 2-0 í seríu en aðeins tvisvar sinnum náð að koma til baka og vinna hana. Þetta gerðist árin 1994 og 1995 - árin sem Houston vann meistaratitlana sína.

Það sem er skemmtilegast við þetta einvígi í dag er einmitt hvað það er skemmtilegt. Eins og búast mátti við, höfum við fengið að sjá brjálaðan sóknarleik í þessu og stundum svo mikinn hraða að enginn ræður við neitt. Ekki misskilja, þessi lið kunna alveg að spila varnarleik, en þau eru sannkallað augnakonfekt í sókninni.

Og það sem kórónar alla þessa sóknargleði einvígi stórstjarnanna tveggja Stephen Curry og James Harden. Þeir eru báðir að spila frábærlega um þessar mundir og við fáum öll að njóta veislunnar.

Það er gaman að fá loksins að sjá Curry leika listir sínar stóra sviðinu og gera með því tilkall til þess að stækka prófílinn sinn utan hins nánasta NBA samfélags.

Við sem fylgjumst með NBA deildinni 24/7 vitum alveg hvað Curry getur, en nú fær bolurinn að kynnast honum líka nú þegar liðið hans er komið alla leið í undanúrslitin og leikir þess byrja fyrr en áður (þó þeir byrji auðvitað hundseint hér á landi eins og alltaf).

Ef vel er að gáð, getið þið séð hvernig sjálfstraustið vex og vex hægt og bítandi hjá Curry þessa dagana. Hann hefur alltaf verið nokkuð svægur á því, en þessi velgengni hans undanfarið í bland við frábæran stuðning frá þjálfarateyminu er að keyra egóið á honum í botn.

Menn eins og Curry sem borga reikningana sína með því að vinna sem skyttur, hafa aldrei nóg af egói. Þá erum við að meina jákvæðari hliðarnar á egóisma - óbilandid trú á eigin aðferðafræði og hæfni í faginu.

Þetta sama er í gangi hjá James Harden. Í nýlegu viðtali viðurkenndi hann að hefðu runnið á hann tvær grímur á tímabili eftir að hann fór til Houston, þar sem hann spurði sjálfan sig hvort hann væri raunverulega nógu góður til að vera aðal gaurinn í liði.

Ætli hann sé ekki búinn að slökkva í þeirri pælingu núna, því hann er að spila um það bil eins vel og hægt er þessa dagana.

Harden er með 33 stig, 10 fráköst, 9 stoðsendingar, 3,5 stolna bolta, 58% skotnýtingu og 93% vítanýtingu í leikjunum við Warriors. Einhver gæti sagt að þetta væru LeBron-legar tölur, en það er óþarfi að kalla þær það. Þetta eru bara Harden-legar tölur. Dílaðu við það.

Og ef við ætlum að fara að velta okkur upp úr frammistöðu einstaka leikmanna, verðum við að sjálfssögðu að minnast aðeins á Draymond Green. Þvílíkur gæðaleikmaður sem hann er sá drengur. Hann er að bjóða upp á 12/10/8 meðaltal og brjálaða vörn um allan völl og þegar hann er ekki að rífa kjaft við allt sem hreyfist er hann að peppa félaga sína og segja þeim til í vörninni.

Þessi drengur á eftir að fá vel borgað næst þegar hann semur (vonandi við Golden State) en við skulum öll vona að hann smitist ekki af meira-veikinni í kjölfar velgengni Warriors. Hann gæti ekki fundið lið sem hentar honum betur.

Þetta einvígi er alveg ógeðslega skemmtilegt og það er ómögulegt að segja hvaða stefnu það tekur þegar það færist niður til Texas.

Það þyrfti ekki að koma neinum á óvart þó Golden State tæki þetta einvígi nokkuð örugglega í fjórum eða fimm leikjum, en við erum eiginlega að vona að við fáum meira en það.

Annar punktur sem við verðum að henda hérna inn er svo þátttaka Josh Smith í þessari rimmu. Hvað er að frétta með þann mann?

Við vitum ósköp vel að hann var bænheyrður í sjötta leiknum gegn Clippers þegar hann fór allt í einu að hitta úr þriggja stiga skotum, en Kevin McHale þjálfari Houston verður að gæta þess að leyfa Smith ekki að skjóta liðið út úr keppninni - því hann er fær um það.

Smith skaut 6 af 16 í fyrsta leiknum við Warriors í fyrrakvöld en bætti um betur í nótt þegar hann tók sautján skot og hitti aðeins úr fimm þeirra. Þetta er annar leikurinn í röð þar sem Smith nartar í hælana á James Harden í skottilraunum, sem ætti ekki að gerast undir nokkrum kringumstæðum.

Eins og það er nú gaman og stundum fyndið að sjá Josh Smith skjóta, erum við að horfa upp á mann sem er með 28% 3ja stiga nýtingu á ferlinum hlaða múrsteina hjá Houston. Við urðum bara að láta skotkortin hans fylgja með hérna og hafa þau af sitthvorum miðlinum til að rugla enn meira í ykkur.



Haldið þið að liðið hefði átt betri möguleika á að vinna þennan leik ef einhver annar (til dæmis Harden!) hefði tekið þessi tólf skot sem Smith grýtti út í loftið? Við.

Shaun Livingston var aukaleikari dagsins hjá Golden State í fyrsta leiknum, en í nótt var það hinn kvefaði Andrew Bogut sem bauð upp á nokkuð óvæntan sprett í sókninni.

Hann ku hafa verið mjög óhress með frammistöðu sína í fyrsta leiknum en bætti fyrir það í nótt með 14 stigum (7-9 í skotum), 8 fráköstum, 4 stoðsendingum og fimm vörðum skotum. Reyndar var téður Livingston aftur flottur og skilaði 8 stigum af bekknum. Hann er búinn að taka tólf skot í einvíginu og hitta tíu þeirra. Ásættanlegt. Dwight Howard náði að beita sér sæmilega og skilaði fínum tölum þrátt fyrir hnémeiðslin sem hann varð fyrir í fyrsta leiknum.

Það er ekki ástæða til að ætla annað en að hann verði með í þessu áfram, en Howard er leikmaður sem má illa við meiðslum og spilar oftast illa þegar eitthvað er að angra hann. Þjálfarinn hans ætti kannski að segja honum söguna af því hvernig hann spilaði fótbrotinn með Boston í einni úrslitakeppninni á níunda áratugnum.

Golden State gæti alveg notað það ef Klay Thompson væri að skjóta betur en 36% utan af velli og tveimur af fjórtán í 3ja stiga skotunum. Hann hlýtur að fara að finna sig pilturinn og ástæðulaust að hafa stórar áhyggjur af því þó hann hafi kólnað aðeins.

Warriors þarf hinsvegar að hafa meiri áhyggjur af þessum löngu og lélegu köflum sem það tekur alltaf eftir að það nær góðum áhlaupum á Rockets.

Annan leikinn í röð urðum við vitni að gríðarlegum sveiflum, en Golden State var ekki langt frá því að klúðra leik þar sem það náði sautján stiga forystu í öðrum leikhluta.

Kæruleysi og tapaðir boltar eiga þátt í þessu. Síðara atriðið er gamalt vandamál, hitt stórundarlegt. Nú er Golden State búið að vinna allar sex viðureignir sínar við Houston í vetur, fjórar í deild og tvær í úrslitakeppni.

Houston vann síðast sigur á Golden State í Oakland í desember árið 2013. Golden State er 45-3 á heimavelli í vetur, þar af 6-1 í úrslitakeppninni. Þá er liðið 54-0 í leikjum þar sem það nær 15 stiga forystu eða meira á einhverjum tímapunkti.

Að lokum eru hérna nokkrar myndir sem þið getið skoðað næst þegar þið farið á klósettið eða bara núna strax úr því við vorum að hafa fyrir því að setja svona ógeðslega margar myndir hérna inn fyrir ykkur. Það er bara eitthvað við það að skoða myndir frá íþróttakappleikjum. ekki fara á mis við þessa reynslu.