Friday, May 22, 2015

Úttekt á úrvalsliðunum


Stundum nota sjónvarpsmenn fjölda Stjörnuleikja til að láta leikmenn hljóma rosalega góða. Þið vitið þó væntanlega að það er mjög ónákvæm aðferð til að mæla ágæti leikmanna í NBA deildinni, sérstaklega á þessum síðustu og verstu.

Það eru hinsvegar úrvalsliðin þrjú sem eiga að gefa okkur réttari mynd af því hvaða leikmenn voru að spila best á tilteknum tímabilum. Þessi aðferð er ekki gallalaus heldur vegna þess að kjörið miðar við að fylla þurfi allar leikstöður. Hér áður var ósköp einfalt að velja í þessi lið, en það er aðeins flóknara í dag. 

Þannig er búið að breyta reglunum þannig að menn geta "svindlað" aðeins og sett framherja í liðið sitt í stað miðherja ef svo býr undir og ekki er horft sérstaklega til þess hvort um er að ræða leikstjórnendur eða skotbakverði - þeir eru bara titlaðir sem bakverðir.

Valnefndin að þessu sinni var nokkuð sammála um hvaða leikmenn ættu heima í fyrsta úrvalsliðinu, enda var það ekki flókið. Það eina sem stingur í augun þar er að Marc Gasol frá Memphis skuli vera þar, en þar komum við inn á þetta sem við vorum að tuða yfir áðan - leikstöðurnar. Gengið er út frá því að það verði að vera miðherji í úrvalsliðunum hvað sem raular eða tautar - jafnvel þó hann eigi það ekki skilið.






























Marc Gasol hefur til dæmis ekkert að gera í fyrsta úrvalslið deildarinnar. Hann er vissulega mjög góður leikmaður, en það hefi verið réttara í okkar augum að velja til dæmis Chris Paul eða Blake Griffin þar inn í staðinn.

Þeir Stephen Curry, James Harden, LeBron James og Anthony Davis eru það sem við köllum nóbreiner í fyrsta liðið - það liggur í augum uppi að þeir eiga heima þar, hvort sem einhverjir þeirra misstu úr nokkra leiki í deildinni eða ekki.

Það eru hinsvegar lið tvö og þrjú sem fara aðeins í taugarnar á okkur að þessu sinni, en það er mjög auðvelt að laga það með því að skipta úrvalsliði tvö nokkurn veginn út og setja úrvalslið þrjú þar inn í staðinn. Þetta á sérstaklega við um stóru stöðurnar á vellinum, miðherja og framherjana.

Við hefðum þannig frekar sett Tim Duncan og Blake Griffin í lið tvö þar sem þeir eiga réttilega heima. Þeir eru nær því að vera í fyrsta úrvalsliðinu í okkar bókum en því þriðja og kannski á DeAndre Jordan bara heima þar með þeim.

Við höfum ekkert á móti LaMarcus Aldridge, Pau Gasol og DeMarcus Cousins, en þeir ná ekki í lið númer tvö hjá okkur - sérstaklega Pau Gasol - sem var ekki einu sinni besti maðurinn í sínu liði í vetur.

Á hverju ári er fólk að svekkja sig á því að þessi eða hinn skuli ekki ná inn í úrvalslið deildarinnar, annað sem er sérstakt við valið í ár er hvað menn þurftu að spila óguðlega vel til að komast á blað. Það segir sína sögu um styrk leikmanna þegar menn eins og Chris Paul og Russell Westbrook komast ekki í fyrsta úrvalsliðið þó þeir hafi báðir verið framúrskarandi í allan vetur. Það var bara enginn bakvörður að fara að taka sætið af annað hvort leikmanni ársins (Curry) eða manninum sem varð annar í kjörinu á leikmanni ársins (Harden).

Að lokum eru þarna tveir piltar sem vöktu athygli okkar, þeir Klay Thompson og DeMarcus Cousins. Thompson er vel að því kominn að ná inn enda spilaði hann mjög vel fyrir langbesta liðið í deildinni en við erum á báðum áttum með það hvort DeMarcus eigi heima í úrvalsliði tvö.

Hann setur vissulega upp bilaða tölfræði, betri en flestir leikmennirnir þarna, en í okkar huga á hann ekki skilið að komast í annað úrvalslið deildarinnar af því liðið hans vann ekki nema 29 leiki í vetur. 

Þú getur ekki ætlast til þess að verða verðlaunaður mikið ef liðið sem þú spilar með getur nákvæmlega ekkert. Leikmenn sem komast í úrvalslið deildarinnar eiga að vera það góðir að liðin þeirra vinni að minnsta kosti helming leikja sinna og komist helst í úrslitakeppnina. Okkur er alveg sama þó sé fátt um fína drætti í leikmannahóp Sacramento og Cousins fái litla hjálp. Þetta lið er drasl og því hefur stjarnan í því ekkert að gera í úrvalslið. 

Annar punktur varðandi Cousins er svo viðhorf hans og framkoma. Hann var aðeins byrjaður að sýna það í vetur að hann ætlaði að þroskast en hann var nokkuð fljótur að taka upp sína gömlu ósiði. Cousins skilar oftast hrikalegri tölfræði, en þetta er líka oftast innantóm tölfræði af því hún er stofnuð í tapleikjum. Þá kemur allt of oft fyrir hvað eftir annað að Cousins fari í fýlu, láti reka sig út af, nenni ekki að spila vörn og nenni ekki að keyra til baka. Úrvalsleikmenn haga sér bara ekki svona.