Friday, November 20, 2015

Kræsingar í KEF


Fjandi öflugur sigur hjá Keflvíkingum á KR í gærkvöldi 89-81. Stöð 2 Sport hitti enn og aftur á frábæran leik til að sýna beint, en það var svo sem nóbreiner að sýna þennan þar sem þetta var toppslagur.

Keflavíkurliðið byrjar þetta 7-0 og er með sprækt og skemmtilegt lið. Það fékk 24/15/6/3 frá Earl Brown yngri og sjóðandi heita fimm þrista frá Reggie Dupree frænda þínum, sem er að skjóta 68% (17 af 25) fyrir utan á leiktíðinni. Risavaxnir ko-hónis þristar Ágústs Orrasonar skemmdu ekki fyrir heimamönnum í restina.

KR skaut og frákastaði betur en heimamenn í þessum leik, en Keflavíkurliðið vann leikinn betur, sem telur aðeins meira. Þetta var ekki dagur meistaranna, sem gátu ekki keypt körfu fyrir utan.

Það eina sem gekk upp í sóknarleik KR voru áætlanaferðir Michael Crayon inn í teiginn, en með fullri virðingu fyrir þeim ágæta leikmanni, var varnarleikur Keflvíkinga gegn honum í besta falli kómískur á köflum. Crayon þakkaði gott boð og hrærði í 29/15 og 4 stolna.

Brynjar Þór, Björn og Tóti Túrbó náðu sér ekki á strik í langskotunum eins og áður sagði. Við hittum mann eftir leikinn sem fullyrti að Brynjar hefði verið að spila meiddur í gærkvöldi. Við erum ekki svona næm á þetta, allra síst í gegn um myndavélalinsuna.

Ægir okkar Steinarsson náði sér aldrei á strik í skotunum fremur en aðrir KR-ingar, en þar fyrir utan drullaði hann tölfræðiskýrsluna vel út með 12 fráköstum, 5 stoðsendingum og aðeins einum töpuðum bolta.

Ægir er að bjóða upp á 11/7/7 meðaltal í vetur, en þarf að skjóta betur fyrir utan til að opna betur fyrir sig. Það köttar þetta ekki að vera innan við 30% í þristum.

Það er ekki annað en ljómandi gott fyrir deildina að Keflavíkurliðið hafi unnið þennan leik og haldi toppsætinu. Það setur bara pressu á lið eins og KR, sem vonandi fer nú að fá þá Helga og Pavel til baka úr meiðslum, því þeirra er sárt saknað.

Við ætlum ekki þvaðra meira um þennan leik annað en það að stemningin í Sláturhúsinu var algjörlega frábær og þið hefðuð geta logið í einhvern að þetta hefði verið leikur í úrslitakeppninni, svo magnað var andrúmsloftið í Keflavík.

Enn og aftur fær Stöð 2 Sport að sýna gullmola af leik í beinni útsendingu og þó við höfum verið á vellinum og misst af veislunni í sjónvarpinu, gerum við fastlega ráð fyrir að það hafi komið einstaklega vel út.

Það gerir þetta svo enn skemmtilegra að vera með strákana úr Körfuboltakvöldi með í prógramminu fyrir og eftir. Rándýrt að vera með Tom og Svala á litnum og Kjartan Atla, Fannar og Jón Halldór að analísera.

Þetta er standandi veisla.

Það er svo dásamlegt að körfuboltinn okkar sé að verða kominn með umfjöllunina og umgjörðina sem hann hefur átt skilið í svo mörg ár. Þetta eru algjörir nammitímar, stanslaus jól fyrir okkur körfuboltasjúklingana - við gerum ekki annað en opna pakka heilu fimmtudagana og föstudagana.

Hey, hvernig líst þér á að kíkja á sex eða sjöþúsund myndir til gamans?

Það var ekkert.