Saturday, January 23, 2016

Stephen Curry: Því ekki að skjóta frá miðju?


Stephen Curry spilaði alveg einstaklega Stephen Curry-legan leik í nótt þegar Golden State vann eitthvað í kring um 800. leikinn sinn á tímabilinu með því að skella Indiana á heimavelli 122-110.

Curry bauð upp á 39/10/12 dúllugang (sjöundu þrennuna á ferlinum) og átta þrista, en það var ekki nóg. Hann ákvað líka að skjóta einu sinni á körfuna frá sínum vallarhelmingi, en féll því miður á tíma við það svo karfan var ekki góð.

Þá er ekki annað en henda í aðra. Við hefðum sagt "reyna" að henda í aðra, en Steph Curry er ekki í "reyna"-bransanum frekar en Liverpool. Hann hittir bara alltaf, enda er það miklu betra þegar á heildina er litið.



Einu sinni þótti það stórmerkilegur hlutur ef leikmaður í NBA deildinni skoraði átta þriggja stiga körfur í einum og sama leiknum, en stórskotahríð Curry í vetur hefur gert það að verkum að nú þykir það álíka merkilegt og táknmálsfréttatími. Þetta var í NÍUNDA skipti í vetur sem Curry skorar átta þrista eða meira í leik, sem er NBA met og auðvitað mjög eðlilegt.

Þú veist væntanlega að tímabilið er jú hálfnað! Drengurinn ætlar í 400 þrista í vetur. Þessi geimvera.

Hann setti NBA met með 286 þristum á síðustu leiktíð en er kominn í 204 þrista í aðeins 42 leikjum á þessari leiktíð.

Ef hann heldur áfram á sama skriði út veturinn, verða tuttugu leikir eftir af tímabilinu þegar hann slær metið sitt. Sem er svoooo eðlilegt.

NBA metið yfir flestar þriggja stiga körfur í leik er í eigu Donyell Marshall (Toronto 2005) og Kobe Bryant (Lakers 2003), en þeir skoruðu tólf þrista í einum og sama leiknum (Marshall var með nítján tilraunir, Kobe átján).

Curry á best ellefu þrista í leik (eins og félagi hans Klay Thompson og nokkrir aðrir) sem hann setti niður í aðeins þrettán tilraunum þegar hann skaut New York til andskotans í febrúar árið 2013. Þar setti hann stigametið sitt með 54 stigum.

Eins og góður maður hafði orð á á Twitter í nótt, er það eiginlega með ólíkindum að Stephen Curry skuli ekki eiga NBA metið yfir flesta þrista í leik í ljósi þess að hann er gjörsamlega trylltur í langskotunum í vetur (ellefu tilraunir í leik) - og ekki bara það - heldur hittir hann vel líka (5 þristum í leik).

Það kæmi engum á óvart þó Curry færi að slá þetta met og við tippum á að þegar hann gerir það á annað borð, eigi hann eftir að setja fimmtán þrista en ekki þessa þrettán sem þarf til að slá metið.

Það eina sem mælir á móti því að Curry nái þessum áfanga er erfðaefnið í honum, því þó hann sé magnaðasta skytta í sögu NBA deildarinnar, skortir hann samviskuleysi manna eins og Kobe Bryant til að eltast við met.

Það er náttúrulega dálítið sérstakt þegar menn er farið að skorta leysi, en þið ættuð að vera farin að læra það núna að það er ekkert eðlilegt þegar Stephen Curry er annars vegar.